Enski boltinn

Rooney leggur landsliðsskóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney er markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi.
Wayne Rooney er markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi. vísir/getty
Wayne Rooney hefur leikið sinn síðasta landsleik fyrir England. Hann ætlar að einbeita sér að því að spila fyrir Everton.

Í tilkynningu sem Rooney sendi frá sér í dag sagði hann að hann væri hættur í landsliðinu.

Þar kom einnig fram að landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate hefði viljað velja hann í landsliðshópinn fyrir leikina gegn Möltu og Slóvakíu í næsta mánuði. Rooney hafnaði hins vegar boði Southgates.

Rooney lék sinn fyrsta landsleik gegn Ástralíu 12. febrúar 2003, þá aðeins 17 ára og 111 daga gamall. Hann er yngsti landsliðsmaður Englands frá upphafi.

Rooney skoraði sitt fyrsta mark fyrir England í 1-2 útisigri á Makedóníu 6. september 2003. Hann er yngsti markaskorari Englands frá upphafi, 17 ára og 317 daga gamall.

Rooney lék alls 119 landsleiki fyrir England og skoraði 53 mörk. Hann er markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins og sá næstleikjahæsti. Aðeins markvörðurinn Peter Shilton hefur leikið fleiri landsleiki fyrir England (125) en Rooney.

Rooney tók við fyrirliðabandinu hjá enska landsliðinu af Steven Gerrard eftir HM 2014.

Rooney spilaði á sex stórmótum fyrir England; þremur Evrópumótum og þremur heimsmeistaramótum.

Rooney lék sinn síðasta landsleik fyrir England 11. nóvember í fyrra, þegar enska liðið vann 3-0 sigur á því skoska á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×