Erlent

Beðið í ofvæni eftir almyrkva

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aubrey Gemignani, ljósmyndari hjá NASA, prófaði búnað sinn í gær. Hún hyggst fanga almyrkvann á filmu í dag.
Aubrey Gemignani, ljósmyndari hjá NASA, prófaði búnað sinn í gær. Hún hyggst fanga almyrkvann á filmu í dag. Vísir/afp
Bandaríkjamenn bíða nú í ofvæni eftir almyrkva á sólu sem verður sjáanlegur frá Bandaríkjunum í dag. Almyrkvinn mun ganga þvert yfir Bandaríkin, frá Oregon í vestri klukkan 10:15 að staðartíma og til Suður-Karólínu í austri þar sem honum lýkur um 90 mínútum síðar, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum.

Þetta er í fyrsta skipti síðan 1918 sem tunglið gengur í veg fyrir sólu og veldur almyrkva af þessu tagi þvert yfir Bandaríkin. Síðast sást almyrkvi frá meginlandi Bandaríkjanna árið 1979.

Gert er ráð fyrir að allt að átta milljónir manna leggi leið sína að slóð almyrkvans. Þá verður umferðin að öllum líkindum einna verst í Suður-Karólínu þar sem er þéttbýlast.

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur og ritstjóri Stjörnufræðivefsins, er staddur í bænum Casper í Wyoming og mun fylgjast með almyrkvanum sem hefst þar klukkan 11:42 að staðartíma og mun standa yfir í 2 mínútur og 26 sekúndur.

Í frétt BBC segir að þeir sem hyggist fylgjast með almyrkvanum séu beðnir um að sýna nærgætni en hættulegt getur verið að horfa beint í sólina berum augum, jafnvel þó tunglið skyggi á hana eins og í dag. Þá telja sérfræðingar að almyrkvinn í dag muni hljóta mesta umfjöllun allra slíkra atburða í mannkynssögunni.

Frá Íslandi mun sjást lítilsháttar deildarmyrkvi. Hann hefst klukkan 18:21, verður í hámarki 18:44 og lýkur 19:05


Tengdar fréttir

Stórkostlegt sjónarspil þegar almyrkvi gengur yfir Bandaríkin

Eitt stórkostlegasta sjónarspil náttúrunnar mun gleðja milljónir manna í Bandaríkjunum í ágúst þegar almyrkvi gengur yfir landið. Næsti almyrkvi sem sést frá Íslandi verður eftir níu ár - Stjörnu-Sævar ætlar ekki að bíða eftir því og heldur vestanhafs á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×