Innlent

Heilbrigðiseftirlitið ítrekar að fólk fargi Floridana flöskum vegna slysahættu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Svavar Þór og Oddný slösuðust bæði á auga vegna yfirþrýstings í Floridana flösku.
Svavar Þór og Oddný slösuðust bæði á auga vegna yfirþrýstings í Floridana flösku.
Matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sendi í dag frá sér tilkynningu um slysahættuna af Floridana plastflöskum frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Hætta er á yfirþrýstingi í flöskunum sem getur leitt til þess að umbúðir springi með alvarlegum afleiðingum.

Ölgerðin innkallaði allar bragðtegundir af Floridana ávaxtasafa en þær eru Grænn, Andoxun, Goji, Engifer, Heilsusafi og Appelsínusafi.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur áréttar í tilkynningu sinni að upp hafa komið alvarleg tilvik þar sem umbúðir springa annað hvort í heild sinni eða tappi skýst af og sé því um öryggismál að ræða fyrir neytendur. 

Eins og kom fram á Vísi á fimmtudag eru tveir með alvarlega áverka á auga eftir að hafa opnað Floridana ávaxtasafa í plastflösku með þeim afleiðingum að tappinn skaust í auga þeirra.

„Höggið er það þungt sem tappinn gefur að í dag fjórum dögum eftir slysið þá sér hún ekki neitt,“ sagði móðir Oddnýjar Sigrúnar, 18 ára stúlku sem er önnur þeirra sem lenti í slíku slysi. Hugsanlegt er að hún missi sjónina vegna skaðans.

Svavar Þór Georgsson fékk skurð og blæðingu inn á augað eftir að hann opnaði Floridana plastflösku handa eins og hálfs árs gamalli dóttur sinni. Svavar Þór fór þurfti að fara í aðgerð vegna slyssins.  „Þetta jaðraði bara við myndalegasta rothögg,“ sagði Svavar Þór um atvikið í samtali við Stöð 2. 

Ölgerðin tilkynnti um innköllun á Flóridana söfum á föstudag. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur neytendur sem hafa vöruna undir höndum til að farga henni. 


Tengdar fréttir

Neytendur hvattir til að farga Floridana í plastflöskum

Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. hefur tilkynnt matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um innköllun á Floridana ávaxtasafasafa í plastflöskum þar sem dæmi eru um að yfirþrýstingur hafi myndast í flöskunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×