Skoðun

Plastlaus september

Elsa Þórey Eysteinsdóttir skrifar
Gríðarlegt magn af einnota plasti er urðað eða endar í hafinu sem er mikið áhyggjuefni. Samkvæmt könnun Náttúruverndarsamtaka Íslands á viðhorfi almennings til ástands hafsins frá 2016 hafa 80 prósent Íslendinga miklar áhyggjur af plastmengun í hafinu, og er full ástæða til. Hafið er matarkista okkar en virðist um leið vera okkar ruslakista. Allir sjá að það fer ekki saman. Plastlaus september er árvekniátak sem hvetur fólk til að draga úr notkun á einnota plasti og bendir á leiðir til þess á vefsíðu sinni og Facebook síðu.

Einnota plast er einungis notað í nokkrar mínútur, rétt á meðan drukkið er úr glasi eða borðað af diski, svo fer það í ruslið, eða í besta falli í endurvinnslu. Allt plast sem einhvern tíma hefur verið framleitt er þó enn til, það brotnar niður í minni einingar en eyðist ekki. Sum ríki hafa markað sér stefnu til að minnka plastnotkun enda er um að ræða vaxandi vandamál.

Við getum sjálf ákveðið að minnka notkun á einnota plasti í okkar daglega lífi. Við getum valið vörur sem pakkað er í annars konar umbúðir, sleppt rörum og lokum þegar við kaupum drykki, farið með eigin ílát í verslanir sem það bjóða, keypt sápustykki í staðinn fyrir brúsa, valið grænmeti sem ekki er pakkað í plast. Áherslan er á einnota plast, engin ástæða er til að henda því plasti sem til er, reynum að nota minna en endurnotum og endurvinnum það plast sem fer um hendur okkar. Fjölmörg ráð er að finna á heimasíðunni plastlausseptember.is

Plastlaus september hvetur okkur til að kaupa minna af einnota plasti í september. Við veljum verkefni við hæfi og hvort við tökum þátt í einn dag, eina viku, allan mánuðinn eða til frambúðar. Öll skref í átt að hreinni jörð eru mikilvæg skref hversu stór sem þau eru.

 

Höfundur er líffræðingur, í stjórn plastlauss september.




Skoðun

Sjá meira


×