Innlent

Sveinn Gestur lýsir áfram yfir sakleysi

Sveinn Gestur Tryggvason leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Sveinn Gestur Tryggvason leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir
Verjandi Sveins Gests Tryggvasonar, sem var í gær ákærður vegna dauða Arnars Jónssonar Aspar, segir umbjóðanda sinn hafna ákærunni. „Hann hefur lýst sig saklausan af þessum ásökunum og heldur sig fast við það,“ segir verjandinn, Þorgils Þorgilsson, í samtali við Fréttablaðið.

Héraðssaksóknari ákærði Svein Gest fyrir stórfellda líkamsárás samkvæmt 2. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga. Brotið getur varðað fangelsi allt að sextán árum þegar bani hlýst af atlögunni.

Sveinn Gestur hefur setið í gæsluvarðhaldi síðustu tólf vikur grunaður um að hafa ráðið Arnari bana að Æsustöðum í Mosfellsdal þann 7. júní. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í gær á að framlengja varðhaldið yfir honum til 28. september. Úrskurðurinn hefur verið kærður til Hæstaréttar, að sögn Þorgils.

Sveinn Gestur er einn ákærður í málinu en upphaflega voru sex handteknir. Fjórum var fljótlega sleppt og þeim fimmta, Jóni Trausta Lútherssyni, nokkrum vikum síðar eftir að Hæstiréttur neitaði að fallast á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum. Sveinn Gestur og Jón Trausti voru báðir í einangrun í nokkra daga á meðan gæsluvarðhaldsvist þeirra stóð.

Málið var upphaflega rannsakað sem manndráp, líkt og fram kemur í eldri gæsluvarðhaldsúrskurðum, en eins og áður segir hefur saksóknari nú ákveðið að ákæra fyrir stórfellda líkamsárás.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×