Ákveðið hefur verið að veita lögreglunni í London 154 þúsund pund, um 22 milljónir króna, til að halda leitinni að Madeleine McCann áfram. Hún hvarf í Portúgal árið 2007, þegar hún var þriggja ára, og stóð til að hætta leitinni, sem hefur hingað til kostað rúmlega ellefu milljónir punda, um einn og hálfan milljarð.
Lögreglan í London hefur, samkvæmt frétt Guardian, komið að leitinni frá árinu 2011. Fjórir rannsóknarlögreglumenn vinna nú að rannsókninni í Bretlandi.
Hvarf Madeleine, sem þá var þriggja ára gömul, vakti heimsathygli árið 2007. Stúlkan var með foreldrum sínum í fríi í Portúgal þegar hún hvarf úr íbúð í Praia da Luz. Foreldrar Maddie, Kate og Gerry, hafa heitið því að gefast aldrei upp.

