„Það er allt á floti alls staðar eins og segir í laginu,“ segir Eiður sem er fæddur og uppalinn á Bragðavöllum um 11 kílómetra vestan af Djúpavogi. Þar hefur faðir hans, Guðmundur Ragnar Eiðsson, búið frá 1970 og aldrei hafi rignt eins og nú.
„Þetta er það mesta sem ég nokkurn tímann séð. Sama segir pabbi,“ segir Eiður. Rignt hafi í gær en svo hafi úrhellið byrjað eftir miðnætti.
„Það rigndi alveg svakalega mikið í nótt,“ segir Eiður. Hann hafi merkt það að vatnið í Hamarsá hafi þegar verið búið að hækka töluvert í morgun klukkan sjö. Hún hafi hækkað enn meira í framhaldinu en nú sé aðeins farið að sjatna aftur.
„En það er enn að bæta í rigninguna svo maður veit ekki hvernig þetta verður.“
Að neðan má sjá myndband sem Eiður tók í hádeginu í dag.
Þá segir Eiður að vegurinn inn að Hamarsseli sé á kafi. Bóndinn þar sem því lokaður inni en vegurinn sinni einnig hlutverki varnargarðs. Vegagerðin standi vaktina og reyni að halda honum eins og hægt sé.

Í frétt á vef Vegagerðarinnar segir að vegir á Suðaustur- og Austurlandi hafi skemmst allvíða vegna vatnavaxta s.s. þar sem runnið hefur úr vegköntum.
Vatn flæðir yfir þjóðveg 1 við Hómsá á Mýrum, vegurinn er fær en þar er rétt að fara um með varúð. Vegur 966 í Breiðdal er í sundur vegna vatnsskemmda, alveg innst í dalnum - og eins er vegurinn upp í Laka ófær vegna vatnsskemmda.
Að neðan má sjá myndir sem Ingi Ragnarsson, bróðir Eiðs, tók af Hamarsánni í ham í úrhellinu á Austurlandi. Smellið á örvarnar til að fletta eða flettið með fingrunum í snjallsíma.