Innlent

Afgerandi ummæli Kára um rotið innræti Páls reyndust öfugmæli

Jakob Bjarnar skrifar
Kári segir að sér hafi ekki verið alvara með krassandi ummælum sínum um innræti Páls Magnússonar.
Kári segir að sér hafi ekki verið alvara með krassandi ummælum sínum um innræti Páls Magnússonar.
„Ég vil leggja á það áherslu að með þessum skilningi á ummælum mínum sýnir Páll fram á svo ekki verður um villst, að hann skilur hið ástkæra ylhýra mál sem ég tjái mig á,“ segir Kári Stefánsson í samtali við Vísi.

Og er þá þar með búið að hnýta hnút á mál nokkurt sem lifið ekki af daginn og má því heita sannkallað dægurmál. Vísir greindi frá því fyrr í dag að Kári hefði, á hádegisverðarfundi BSRB, haft uppi býsna afgerandi ummæli um Pál Magnússon, efsta mann á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi: „Við Páll erum mjög góðir vinir. Ég veit þess vegna manna best hvers konar drullusokkur Páll Magnússon er.“

Þessi krassandi einkunn vakti að vonum athygli. En, Páll lét sér hins vegar hvergi bregða og sagði þetta að þýða á mállýsku Kára að honum „finnst ég vera hjartahlýr afburðamaður.“ Og bætti við: „Ég mun hins vegar ekki taka fleiri símtöl frá honum fyrr en hann er búinn að staðfesta þennan skilning minn opinberlega.“

Og nú hefur það sem sagt gerst. „Hér með geri ég það,“ segir Kári. Og þarf þá ekki frekar að velta því fyrir sér hvort Kára hafi verið alvara eða ekki með hinum afdráttarlausu ummælum um innræti Páls Magnússonar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×