Innlent

Páll um ummæli Kára: „Honum finnst ég vera hjartahlýr afburðarmaður“

Jakob Bjarnar skrifar
Páll ætlar ekki að svara símtölum frá Kára fyrr en hann staðfestir þennan skilning sinn á hinum yfirgengilegu ummælum.
Páll ætlar ekki að svara símtölum frá Kára fyrr en hann staðfestir þennan skilning sinn á hinum yfirgengilegu ummælum.
Miskunnarlaus ummæli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um Pál Magnússon alþingismann þess efnis að Páll væri drullusokkur, raska ekki ró Páls.

„Þetta þýðir á mállýsku Kára Stefánssonar að honum finnst ég vera hjartahlýr afburðamaður,“ segir Páll í stuttu samtali við Vísi.

„Ég mun hins vegar ekki taka fleiri símtöl frá honum fyrr en hann er búinn að staðfesta þennan skilning minn opinberlega,“ bætir hann við.

Téð ummæli féllu á hádegisverðarfundi BSRB en þar sagði Kári að hann vorkenni Eyjamönnum að sitja uppi með Pál Magnússon í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.

„Við Páll erum mjög góðir vinir. Ég veit þess vegna manna best hvers konar drullusokkur Páll Magnússon er.“

Ummælin féllu í góðan jarðveg á fundinum en fundarmenn voru ekki með öllu vissir um hvernig bæri að skilja þetta, hvort um grín væri að ræða eða hvað. Þeir hlógu hlógu dátt en Kári brá hins vegar ekki svip.

Samkvæmt tíðindamanni Vísis fór Kári á kostum á fundinum og lét fyrirspyrjendur ekki komast upp með neitt múður. Þannig var hann fljótur að þagga niður í Álfheiði Ingadóttur, frambjóðanda Vg, sem hafði einhverjar málalengingar í fyrirspurn sinni: „Engar framboðsræður hér!“

Stöð 2 mun fjalla nánar um þennan frísklega fund í kvöldfréttatíma sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×