Í janúar síðastliðnum var vesturhúsið rýmt vegna raka og myglu sem farin var að hafa áhrif á starfsfólk og samhliða því hófust tilraunaviðgerðir. Sem kunnugt er skiluðu þær ekki viðunandi árangri.

Allar fasteignirnar að Bæjarhálsi 1 eru um 22 þúsund fermetrar. Flatarmál skrifstofuhluta vesturhússins, sem nú stendur auður, er um 4 þúsund fermetrar. Miðað við þetta er OR því að greiða um 845 krónur á hvern fermetra á mánuði í leigu eða tæpar 3,4 milljónir á mánuði fyrir hið auða vesturhús.
Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri Orkuveitunnar, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að enn sé verið að greiða leigu af vesturhúsinu en að verið sé að skoða leiðir til að fá slegið af leigunni í ljósi ástandsins.
„Við erum að kanna okkar stöðu í þeim efnum.“
Þá rúmu sjö mánuði síðan vesturhúsið var rýmt hefur OR samkvæmt þessum útreikningum greitt tæpar 24 milljónir króna í leigu fyrir auða rýmið. Á ári gera það rúmar 40 milljónir króna.
Alls hefur Orkuveitan greitt um 900 milljónir króna í leigu til Foss síðan fasteignafélagið keypti húsin á 5,1 milljarð. Á móti kemur að fyrirtækið hefur ávaxtað þennan 5,1 milljarð sem fékkst með sölunni um 1,2 milljarða á sama tíma.