Skoðun

Var allt betra hér áður fyrr?

Bjarni Benediktsson skrifar
Í aðdraganda þessara kosninga ber á því að allt of margir tala niður þann mikla árangur sem við Íslendingar höfum sameiginlega náð. Miklu máli skiptir að fram fari opin og heiðarleg umræða um framfarir í landinu, framfarir sem eiga að gera okkur stolt af því að vera Íslendingar.

Næst þegar við mætum neikvæðni og bölmóði um okkar góða land ættum við að spyrja:

Ef þú gætir valið einhvern tíma frá landnámi til að setjast að á Íslandi, hvaða tíma myndir þú velja?

Hvenær var langlífi meira, heilbrigðiskerfið betra eða geta okkar ríkari til að glíma við sjúkdóma, halda úti þéttriðnu velferðarneti og hjálpa þeim sem á þurfa að halda?

Var áður auðveldara að afla sér þekkingar og nýta hana hér eða erlendis? Hvenær var menning í samfélagi okkar blómlegri, menntakerfið sterkara eða betra að ala upp börn?

Veltum fyrir okkur ástandi auðlindanna, stöðu fiskistofnanna í hafinu og þeirri þekkingu sem við búum nú yfir til að nýta orku fallvatna og hitann í iðrum jarðar til verðmætasköpunar með sjálfbærum hætti.

Höfum við lifað aðra tíma þar sem jafnrétti var meira eða frelsi einstaklingsins? Hafa samgöngur í landinu áður verið greiðari, tæknin fullkomnari eða tengingar landsins við umheiminn?

Vorum við áður í betri stöðu til að leggja af mörkum til þeirra sem búa á stríðshrjáðum svæðum, glíma við fátækt, hungursneyð eða ofsóknir?

Það er svo margt sem mælir með því að við mættum að vera stoltari af þeim árangri sem þjóðin hefur náð.

Væri ég spurður um það hvaða tíma ég myndi velja frá landnámi til að stofna fjölskyldu, búa og starfa á Íslandi veldi ég daginn í dag.

Við skipum okkur fremst meðal þjóða í lífskjörum og útlitið hefur aldrei verið betra. Verum jákvæð og bjartsýn. Grípum tækifærin.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×