„Ég vil hrósa starfsliðinu. Þessa níu daga hafa verið tvær nætur þar sem það hefur ekki fengið einn einasta klukkutíma í svefn. Það sýnir að þessi liðsheild nær miklu lengra en þessir strákar sem eru inni á vellinum,“ sagði Heimir.
„Það eru allir tilbúnir að leggja sig fram til að þessi hópur spili betur og honum gangi betur. Ég vil hrósa starfsliðinu sem hefur verið frábært í þessari ferð.“
Heimir sagði svo stutta sögu sem honum finnst sýna hversu öflugt starfsliðið er.
„Við fengum farangurinn okkar degi fyrir Tyrkjaleikinn. Þeir voru að þvo búningana. Það var eitt sett af æfingafatnaði og hótelgöllum og menn voru á næturnar að þvo svo það væri hægt að fara í þá daginn eftir,“ sagði Heimir.
„Það eru ekkert margir hópar sem hefðu haldið einbeitingu og látið þetta ekki fara í taugarnar á sér. Starfsliðið á þvílíkt hrós skilið og ég held að við hefðum ekki getað fengið betri undirbúning.“
Blaðamannafundinn í heild sinni má sjá hér að neðan.