Lífið

 Tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það eru margir búnir að hringja í mig og bjóðast til að vera + 1 með mér í ferðinni til New York,“ segir Inga Hlín hlæjandi.
"Það eru margir búnir að hringja í mig og bjóðast til að vera + 1 með mér í ferðinni til New York,“ segir Inga Hlín hlæjandi. Vísir/Ernir
„Ég fékk þessar fréttir í gær og er að reyna að átta mig á þeim. Þær komu mér ánægjulega á óvart,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir um tilnefningar sem hún hefur hlotið í þremur flokkum til Stevie Awards verðlaunanna, sem ætluð eru framúrskarandi konum í atvinnulífinu á heimsvísu og verða afhent í New York 17. nóvember. 

Inga Hlín stýrir markaðsmálum á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda. Flokkarnir sem hún er tilnefnd í hjá Stevie Awards eru: umbótamaður ársins, stjórnandi ársins og kona ársins. „En ég er ekki búin að fá verðlaunin,“ tekur hún fram. Kveðst þó pottþétt fara út til New York. „Það eru margir búnir að hringja og bjóðast til að vera + 1 með mér!

Hverju þakkar hún þennan heiður? „Rúna Magnúsdóttir heitir konan sem tilnefndi mig. Ef ég las rétt í gær þá eru 170 dómarar sem fara í gegnum alla sem þykja hæfir í þetta ferli og velja svo úr þeim. Þetta er ekki netkosning.“

Inga kveðst hafa byrjað hjá Útflutningsráði fyrir ellefu árum og hjá Íslandsstofu fyrir sjö árum. „Inspired by Iceland er raunverulega mitt fyrsta markaðsverkefni og ég hef stýrt því og þróað það. Við notum það vörumerki í allri markaðssetningu erlendis fyrir ferðaþjónustuna og það verður bara sterkara og sterkara. Á mánudaginn kynnum við nýja vegferð í því verkefni.“

  En Inga Hlín kveðst langt í frá eiga heiðurinn ein. „Við erum að vinna með hundruðum fyrirtækja og áherslurnar eru afsprengi mikillar samvinnu og samtals. Ég tala mikið erlendis og þar þykir samstarfið hér landi sérstakt og að við vinnum undir einu merki þykir merkilegt. Aðrar þjóðir öfunda okkur af því fyrirkomulagi.“

Engin íslensk kona hefur komist svona langt í Stevie Awards en hin danska Janne Sigurðsson hlaut gullverðlaun Stevie sem forstjóri ársins 2012. Hún var þá forstjóri Fjarðaáls á Reyðarfirði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.