Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa orðið Sanitu Brauna að bana í vesturbæ Reykjavíkur þann 21. september síðastliðinn, hefur játað við yfirheyrslur að hafa veist að henni. Meðal annars hefur hann viðurkennt að hafa veitt henni höfuðhögg með slökkvitæki.
Maðurinn var handtekinn á vettvangi þann 21. september. Hann var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald þann 22. september á grundvelli rannsóknarhagsmuna og þann 29.september var hann úrskurðaður í áframhaldandi fjögurra vikna langt gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.
Hinn grunaði hefur játað við yfirheyrslur að hafa veist að Sanitu og m.a. veitt henni höfuðhögg með slökkvitæki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Rannsókn málsins miðar vel og verður málið sent héraðssaksóknara, sem fer með ákæruvald í málinu, að rannsókn lokinni.
Sagður hafa veitt henni eftirför
Greint hefur verið frá því að hinn handtekni og Sanita hafi átt í stuttu persónulegu sambandi um tíma en að því hafi verið lokið þegar maðurinn réðst á hana. Þetta staðfesti til að mynda Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglu, í samtali við Vísi.
Í samtali við DV vísa ættingar og vinir Sanitu því á bug að um ástarsamband hafi verið að ræða. Sanita og maðurinn hafi aðeins hist einu sinni, aðeins spjallað saman á netinu en aldrei sofið saman. Er hann sagður hafa verið „brjálaður“ vegna áhugaleysis hennar og er haft eftir eiginmanni dóttur Sanitu að maðurinn hafi oft veitt henni eftirför.
Fjölmargir íbúar á Melunum urðu vitni að því þegar maðurinn var leiddur út úr húsinu í járnum fyrir viku síðan. Lét hann öllum illum látum og þurfti lögregla að beita piparúða til að hemja manninn. Hann var á nærfötunum einum fata og með blóð á líkama sínum. Í framhaldinu var annar maður leiddur af vettvangi en hann er nú laus úr haldi lögreglu.
Innlent