Innlent

Það skiptir sköpum á hvaða aldri fólk byrjar að drekka

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Nora Volkow sem er einn fremsti vísindamaður í heiminum í rannsóknum á fíknisjúkdómum segir að það skipti sköpum á hvaða aldri fólk hefji neyslu áfengis eða annarra vímuefna. Líkurnar á að þróa með sér fíkn aukist ef fólk sé yngra. Hún segir að starf SÁÁ á Íslandi sé á heimsmælikvarða.

Dr. Nora Volkow er geðlæknir sem hefur helgað sig rannsóknum á heilanum og fíkn en hún flutti erindi á 40 ára afmælisráðstefnu SÁÁ sem nú stendur yfir á Hilton. Ransóknir hennar og annarra hafa leitt í ljós að alkóhólismi og fíkn er krónískur heilasjúkdómur.

„Dópamín er efni í heilanum sem verður fyrir áhrifum frá öllum fíkniefnum, þar á meðal áfengi. Endurtekin notkun leiðir til minni losunar dópamíns í heilanum. Dópamínkerfið er mikilvægt,reyndar ómissandi, fyrir rétta virkni framheilans. Það skýrir af hverju fíklar eiga svona erfitt með að stjórna tilfinningum sínum og löngunum,“ segir Volkow.

Rannsóknir hafa sýnt að því yngri sem manneskjan byrjar að nota áfengi og önnur vímuefni því líklegra er að manneskjan verði háð efnunum.

„Þetta er vegna þess að eftir því sem maður er yngri þeim mun auðmótaðri er heilinn, hann er sveigjanlegri, og það þýðir breytingar á heilanum þegar hann verður fyrir tiltekinni örvun og fíkniefni breyta verulega tengingum í heilanum. Eftir því sem maður er yngri þeim mun hraðara verður þetta ferli. Þess vegna er það að eftir því sem maður er yngri þegar maður byrjar að nota fíkniefni því fljótari er maður að ánetjast þeim og fíknin varir lengur og það verður erfiðara að veita meðferð,“ segir Volkow. 

Hún var hér í annað sinn á Íslandi á vegum SÁÁ en hún kom síðast fyrir tæpum áratug. Hún segir að þjónusta SÁÁ sé með því besta sem hún hafi séð í heiminum.

„Ég held að á Íslandi sé sennilega ein besta meðferðaraðstaða við fíkn sem til er,“ segir Dr. Nora Volkow. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×