Innlent

Aðsókn í Frú Ragnheiði eykst stöðugt og kostnaðurinn líka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kostnaðurinn við Frú Ragnheiði hefur aukist talsvert upp á síðkastið. Fólk í neyslu kann sífellt betur að meta verkefnið.  Fréttablaðið/Anton Brink
Kostnaðurinn við Frú Ragnheiði hefur aukist talsvert upp á síðkastið. Fólk í neyslu kann sífellt betur að meta verkefnið. Fréttablaðið/Anton Brink
Eftirspurn eftir þjónustu Frú Ragnheiðar eykst stöðugt og er búist við að kostnaður við verkefnið í ár fari tvær til þrjár milljónir fram yfir áætlanir. Frú Ragnheiður er sérinnréttaður bíll sem þjónustar fólk í fíknivanda með skaðaminnkun að leiðarljósi.

„Það er búin að vera stöðug aukning síðustu tvö ár. Í fjölda einstaklinga sem koma til okkar og fjölda heimsókna á hverri vakt. Fólkið er að fá meiri þjónustu hjá okkur, bæði að sækja meiri búnað og fleiri nálabox að fara út,“ segir Svala Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum. Hún segir að fólk skili sífellt fleiri nálaboxum og aukinn kostnaður sé við kaup á heilbrigðisvörum.

Svala Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinumvísir/ernir
„Verkefnið hefur því kostað okkur miklu meira síðustu eitt til tvö ár en við bjuggumst við,“ segir Svala. Ráðgert var að í ár myndi verkefnið kosta 16 til 17 milljónir en Svala segir að núna sé búist við að kostnaðurinn fari upp í 20 milljónir. Á næsta ári er reiknað með því að verkefnið fari upp í 22 milljónir.

Svala segir að þótt kostnaðurinn við verkefnið sé meiri en ráðgert var sé ekki ætlunin að hætta starfseminni. Aukin eftirspurn sé fagnaðarefni. „Skjólstæðingar okkar eru mjög ánægðir með þjónustuna. Þeir koma oftar til okkar. Það eru fleiri að koma til okkar. Þau eru að huga að ábyrgari neysluhegðun,“ segir Svala.

Frú Ragnheiður er starfandi sex sinnum í viku og Svala segir að bíllinn fái um 300 heimsóknir á mánuði, en hún telur að þar á bak við séu um það bil 120 einstaklingar. Þá rekur Frú Ragnheiður líka nálaskiptaþjónustu í Konukoti, athvarfi fyrir heimilislausar konur. Þar geta konur leitað í nálaskiptaþjónustu á opnunartíma.

Rauði krossinn hefur fengið styrk frá heilbrigðisráðuneytinu til að halda úti starfsemi Frú Ragnheiðar síðustu tvö ár. Heilbrigðisráðuneytið hefur greitt sex milljónir fyrir árið 2017, lítill hluti kemur frá velviljuðum fyrirtækjum og Rauði krossinn fjármagnar afganginn. Núna er verið að sækja eftir stuðningi frá Reykjavíkurborg, því langflestir skjólstæðingarnir eru með lögheimili í Reykjavík. „Framtíðaróskin er sú að Reykjavíkurborg og ríkið fjármagni verkefnið,“ segir Svala. Hún telur að þetta geti orðið að veruleika. „Við upplifum mikla jákvæðni frá kerfinu, bæði Reykjavíkurborg og heilbrigðisráðuneytinu.“

Rauði krossinn getur tekið við fjárframlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum fyrir starfsemi Frú Ragnheiðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×