Skoðun

Börnin, skólar og símar

Árný Björg Blandon skrifar
Maður getur ekki orða bundist þegar maður heyrir fréttir um símanotkun barna í skólum í dag.

Fyrst er maður orðlaus en þegar maður loksins getur farið að tjá sig þá er það svona:

Það er ýmislegt að gerast í þjóðfélaginu okkar og margt sem farið hefur úr böndum, það er á hreinu, en að börn séu að nota farsímana sína á skólatíma er eitthvað sem manni hefði aldrei komið í hug að yrði samþykkt, hvorki af foreldrum, kennurum eða öðrum.

Auðvitað er í góðu lagi að börnin taki símana með sér en það ætti að vera eðlilegasti hlutur að setja símana afsíðis eins og úlpur og skó á meðan á skólatímum stendur. Það þarf að búa til einhverjar reglur, setja þetta mál í einhvern eðlilegan farveg, þótt tækin séu eign barnanna. Skólanámið er mikilvægt og sérhver truflun óæskileg.

Er ekki orðin ofnotkun á tölvum og símum í höndum barna okkar hvort eð er utan skólanna? Þessi tæki eru svo spennandi og við vitum sjálf að þau geta orðið vanabindandi, tímaþjófar og margt annað miður gott, þótt þau séu þarfaþing og skemmtileg afþreying innan marka.

Að farsímanotkun sé leyfð á skólatíma er mér óskiljanleg þróun og veldur sannarlega vissum áhyggjum. Enda hefur komið fram að þessi dauðu tól eru mörgum vinsælli en lifandi skólavinir. Það getur ekki vísað á góða framtíð.

Þetta er ekki góð þróun.

Farsímar eru öryggistæki á leið í og úr skóla, en í skólunum njóta börnin öryggis kennara sinna og annara sem vinna með þeim. Þau hafa komist af án síma fram að þessu. Búa flest nær heimilum sínum og geta fengið að hringja á skólaskrifstofunni ef eitthvað kemur upp á eða foreldrar geta hringt í skólaskrifstofuna ef þau þurfa að ná í börnin sín. Sú leið hefur alltaf virkað.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×