Innlent

Mikill meirihluti Íslendinga andvígur lögbanni á Stundina

Jakob Bjarnar skrifar
Afgerandi meirihluti landsmanna telur ákvörðun Þórólfs Halldórssonar og hans fólks hjá sýslumannsembættinu fráleita.
Afgerandi meirihluti landsmanna telur ákvörðun Þórólfs Halldórssonar og hans fólks hjá sýslumannsembættinu fráleita. visir/eyþór
MMR framkvæmdi könnun dagana 17 til 18. október sem mælir afstöðu Íslendinga til hins umdeilda banns á fréttaflutning Stundarinnar, í því sem snýr á fréttum sem byggja á gagnaleka úr Glitni.

Fram kemur að mikill meirihluti er algerlega andvígur þessu lögbanni Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á fjölmiðla, eða 77 prósent aðspurðra.

Einungis 11,4 prósent Íslendinga eru fylgjandi lögbanninu en tæp 12 prósent sögðust ekki hvorki fylgjandi né andvígir.

Í könnuninni kemur fram að þeir sem styðja Sjálfstæðisflokkinn eru líklegri en aðrir að vera fylgjandi lögbanninu í samanburði við aðra stuðningsmenn annarra stjórnmálaflokka, eða 34 prósent.

Heildarfjöldi svarenda voru 1007 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður, sem hefur sérhæft sig í að greina kannanir, rýndi í könnunina og hann segir á Facebooksíðu sinni að engan mun megi greina á afstöðu milli kynja, aldurshópa, menntunar eða búsetu.

„Það eina sem eykur líkur á að fólk sé fylgjandi lögbanninu eru völd (færri stjórnendur á móti), peningar (færri í hæstu tekjuhópnum á móti) og stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn. Andúð við lögbannið vex eftir því sem fólk stendur fjarri valdi og peningum en minnkar eftir því sem koppurinn kemst í búrið,“ segir Gunnar Smári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×