Erlent

Trump bæði nöldurseggur og lygari segir æðstiklerkur Írans

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ali Khamenei fundaði með nemendum í gær.
Ali Khamenei fundaði með nemendum í gær. vísir/afp
Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, lýsti því yfir í gær að yfirvöld þar í landi hygðust standa við kjarnorkusamninginn svo lengi sem aðrir samningsaðilar stæðu einnig við hann. Frakkland, Þýskaland, ESB, Íran, Bretland, Kína, Rússland og Bandaríkin eru aðilar að samkomulaginu sem miðar að því að Íransstjórn láti af áformum um þróun kjarnorkuvopna gegn því að viðskiptaþvingunum verði aflétt.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað lýst yfir megnri óánægju með samninginn og sagðist hann í kosningabaráttunni ætla að rifta honum. Þann 13. október síðastliðinn tilkynnti Trump svo um að Bandaríkin myndu ekki staðfesta samkomulagið. Forsetinn sagði Íran styðja hryðjuverkasamtök og að ríkið hefði nú þegar margsinnis gerst brotlegt við ákvæði samningsins.

„Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að svara nöldri og digurbarkalegum fullyrðingum þessa hrottalega forseta,“ sagði Khamenei í gær þegar hann ræddi við nemendur í höfuðborginni Teheran og bætti við: „Heimska Trumps ætti ekki að afvegaleiða okkur frá því að taka eftir sviksemi Bandaríkjanna.“

Khamenei sagði að ef Bandaríkin myndu rifta samkomulaginu myndu Íranar „tæta“ það. „Enn á ný munu allir sjá Bandaríkin fá kjaftshögg og tapa fyrir Írönum,“ sagði æðstiklerkurinn.

Jafnframt sagði Khamenei Trump brjálaðan vegna þess að Íranar væru að eyðileggja áætlanir Bandaríkjanna í Líbanon, Sýrlandi, Írak og Egyptalandi. Það kæmi Bandaríkjunum einfaldlega ekkert við hvað Íranar gerðu á svæðinu. „Ef þeir spyrja okkur hvers vegna við eigum eldflaugar svörum við með því að spyrja hvers vegna þeir eigi eldflaugar og kjarnorkuvopn.“

Þá kallaði Khamenei eftir því að aðrir aðilar samkomulagsins fordæmdu framgöngu Trumps í málinu.

Bandaríkjastjórn hefur meðal annars sakað Írana um að brjóta gegn samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna með eldflaugatilraunum og kallað eftir því að ríkið hætti tilraunum með eldflaugar sem hannaðar séu til að flytja kjarnorkusprengjur. Íransstjórn hafnar því hins vegar alfarið að eldflaugarnar sem um ræðir séu af þeim toga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×