Lífið

James Corden harðlega gagnrýndur fyrir brandara um Harvey Weinstein

Birgir Olgeirsson skrifar
Spjallþáttastjórnandinn James Corden á góðgerðasamkomu alnæmissamtakanna amfAR.
Spjallþáttastjórnandinn James Corden á góðgerðasamkomu alnæmissamtakanna amfAR. Vísir/Getty

Spjallþáttastjórnandinn James Corden hefur fengið skömm í hattinn vegna brandara um Harvey Weinstein sem hann lét falla á góðgerðasamkomu fyrir alnæmissamtökin amfAR.

Samkoman átti sér stað í Los Angeles í Bandaríkjunum síðastliðið föstudagskvöld en þar sagði Corden meðal annars: „Þetta er fallegt herbergi. Þetta er fallegt kvöld hér í LA. Svo fallegt, að Harvey Weinstein hefur nú þegar beðið kvöldið um að koma upp á hótelbergi sitt og nudda sig,“ sagði Corden.

Líkt og hefur komið fram í fréttum undanfarna daga hefur fjöldi kvenna stigið fram og sakað kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi gegn sér. Nokkrar þeirra sögðu Weinstein meðal annars hafa beðið þær um að nudda sig.

Notaði Corden orðasambandið „hot water“ til að lýsa krísu Weinsteins og sagði að það hefði verið skrýtið að fylgjast með honum í „heitu vatni“.

„Spyrjið hvaða konu sem er sem hafa horft á hann í baði,“ sagði Corden en því hefur verið lýst hvernig Weinstein bauð konum að fylgjast með á meðan hann fór í bað.

Corden vísaði einnig í ásökun frá blaðamanninum Lauren Sivan sem sagði Weinstein hafa fróað sér yfir pottablóm.

„Harvey Weinstein vildi koma í kvöld, en því miður ákvað hann að sætta sig við það pottablóm sem var næst honum.“

Leikkonan Rose McGowan hefur sagt frá því hvernig Weinstein nauðgaði henni en hún var verulega ósátt við þetta framferði Cordens.

James Corden áréttaði á Twitter fyrr í dag að kynferðisofbeldi sé ekkert gamanmál. Með bröndurunum hafi hann verið að reyna að smána Weinstein, en ekki fórnarlömb hans. „Ég bið alla þá afsökunar sem ég móðgaði. Það var aldrei ætlun mín.“


Tengdar fréttir

Fleiri konur saka Weinstein um nauðgun

Breska leikkonan Lysette Anthony segir Harvey Weinstein hafa ráðist á sig á heimili hennar í London seint á níunda áratugnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.