Viðskipti innlent

Gagnaveita Reykjavíkur tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna

Atli Ísleifsson skrifar
Tilnefningin er í flokki sem nefnist besti kostur viðskiptavina og er þjónusta sem Gagnaveita Reykjavíkur býður upp á og nefnist „Ein heimsókn“.
Tilnefningin er í flokki sem nefnist besti kostur viðskiptavina og er þjónusta sem Gagnaveita Reykjavíkur býður upp á og nefnist „Ein heimsókn“. Gagnaveita Reykjavíkur
Gagnaveitu Reykjavíkur er á meðal fjögurra fyrirtækja sem tilnefnd hafa verið til alþjóðlegra verðlauna World Broadband Forum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að tilnefningin sé í flokki sem nefnist besti kostur viðskiptavina. Um sé að ræða þjónustu sem Gagnaveita Reykjavíkur býður upp á og nefnist „Ein heimsókn“.

„„Ein heimsókn“ er samstarfsverkefni Gagnaveitu Reykjavíkur og þeirra sex fjarskiptafyrirtækja sem veita þjónustu um Ljósleiðarann,sem er vörumerki Gagnaveitu Reykjavíkur. Samstarfsverkefnið felur í sér að í aðeins einni heimsókn til viðskiptavina í stað tveggja áður, er gengið frá öllum nauðsynlegum tengingum á heimilum fólks og ljósleiðarasambandið prófað og það afhent tilbúið til notkunar,“ segir í tilkynningunni.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, segir þetta vera mikla viðurkenningu á vinnu fyrirtækisins við að efla þjónustuna við viðskiptavini Ljósleiðarans. „Það er gott að fá klapp á bakið frá fólki sem starfar í sama geira úti í heimi, fólki sem hefur mikla innsýn í hvað skiptir máli í þessum geira. Verkefnið Ein heimsókn hefur tekist mjög vel og samstarfið við Vodafone, Nova, 365, Símafélagið, Hringiðuna og Hringdu, verið frábært. Sókn Ljósleiðarans á markaði er ekki síst þessu verkefni að þakka og útbreiðsla hans gerir það að verkum að íslensk heimili eru á meðal þeirra best tengdu í heimi, samkvæmt opinberum úttektum,“ segir Erling Freyr.

Broadband World Forum er einn stærsti vettvangur fjarskiptafyrirtækja fyrir uppbyggingu háhraðaneta, að því er fram kemur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×