Erlent

Hafna samningaviðræðum Katalóna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, fær kaldar kveðjur frá stjórnvöldum í Madrid.
Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, fær kaldar kveðjur frá stjórnvöldum í Madrid. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Spánar hafnar alfarið yfirlýsingum Carles Puigdemont forseta Katalóníu um væntanlegt sjálfstæði héraðsins frá Spáni.

Puigdemont skrifaði undir sjálfstæðisyfirlýsingu í gær en ákvað að bíða með að framfylgja henni um tíma, til að gefa yfirvöldum í Madríd tíma til að ræða málið við Katalóna.

„Við munum lýsa yfir sjálfstæði frá Spáni en við erum að gefa þeim smá tíma,“ sagði Puigdemont í ávarpi sínu til katalónska þingsins í gær. Hann biðlaði til spænskra stjórnvalda að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu héraðsins.

Sjá einnig: Sjálfstæði frestað og gengið til samningaviðræðna við Spán

Forsætisráðherra Spánar heldur neyðarfund í ríkisstjórninni síðar í dag en aðstoðarforsætisráðherra hans hefur þegar tjáð sig við fjölmiðla og segir að Puigdemont sé eins og maður sem viti ekki hver hann sé eða hvert hann er að fara. „Hvorki Puigedemont né nokkur annar getur þvingað samningaviðræður í gegn.“

Jafnvel hafði verið búist við því að Puigdemont myndi lýsa einhliða yfir sjálfstæði í gær og hrinda því strax í framkvæmd en hann ákvað að leika einskonar millileik, með því að undirrita sjálfstæðisyfirlýsinguna en fresta síðan málinu um stund. 

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, heldur ræðu á spænska þinginu í dag. Hann hefur áður sagt að það komi ekki til greina að Katalónía fái að kljúfa sig frá Spáni. Samkvæmt stjórnarskrá Spánar hefur ríkisstjórnin rétt til þess að svipta Katalóníu sjálfsstjórnarréttindunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×