Fótbolti

Björn Bergmann skoraði fyrir Molde sem á enn veika von um að verða meistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Bergmann er þriðji markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar.
Björn Bergmann er þriðji markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar. vísir/ernir
Björn Bergmann Sigurðarson skoraði sitt fjórtánda mark á tímabilinu í norsku úrvalsdeildinni þegar Molde bar sigurorð af Vålerenga, 1-2, í kvöld.

Þessi úrslit þýða að Molde á enn möguleika á að verða norskur meistari.

Vonin er þó mjög veik en Björn Bergmann og félagar eru átta stigum á eftir toppliði Rosenborg, sem gerði markalaust jafntefli við Stabæk, þegar þrjár umferðir eru eftir. Rosenborg hefði getað orðið meistari í kvöld en Molde lengdi biðina aðeins.

Samúel Kári Friðjónsson lék fyrstu 66 mínúturnar í liði Vålerenga sem er í 8. sæti deildarinnar.

Aron Sigurðarson sat allan tímann á varamannabekknum þegar Tromsö vann gríðarlega mikilvægan sigur á Viking í fallbaráttunni. Tromsö, sem hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum, er nú þremur stigum frá fallsæti.

Ingvar Jónsson stóð á milli stanganna hjá Sandefjord sem fékk skell, 5-0, gegn Sarpsborg á útivelli. Sandefjord, sem hefur tapað þremur leikjum í röð, er í 10. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×