Gísli Þorgeir Kristjánsson leikur væntanlega sína fyrstu landsleiki þegar Ísland mætir Svíþjóð í tveimur vináttulandsleikjum í Laugardalshöll annað kvöld og á laugardaginn.
„Það er mjög gaman að vera hérna og heiður að fá að spila með leikmönnum eins og Guðjóni Val [Sigurðssyni],“ sagði Gísli í samtali við Vísi eftir æfingu landsliðsins í Valshöllinni í dag.
Gísli er yngsti leikmaðurinn í íslenska hópnum, fæddur árið 1999. Það sama ár spilaði Guðjón Valur, sem er 20 árum eldri en Gísli, sinn fyrsta landsleik.
„Handbolti spyr ekki um aldur. Hann er enn í heimsklassa og ég stefni á að komast á þann stað sem hann er á,“ sagði Gísli sem var fimm mánaða þegar Guðjón Valur fór á sitt fyrsta stórmót (EM Króatíu 2000).
Gísli var afar hógvær aðspurður hvort hann hefði búist við að fá kallið í landsliðið svona snemma.
„Markmið mín eru að bæta mig á hverjum einasta degi og leggja mig 110% fram á hverri æfingu. Meira get ég ekki gert og ég uppskar sæti í landsliðinu. Það er mjög flott og ég er mjög ánægður,“ sagði Gísli.
FH-ingurinn fór úr olnbogalið á æfingu U-21 árs landsliðsins í sumar og missti fyrir vikið af HM U-19 og U-21 árs og af fyrstu leikjum FH á tímabilinu. Gísli segist vera orðinn góður af meiðslunum.
„Ég er orðinn 100% klár og meiðslin eru ekki lengur að hrjá mig. Skotkrafturinn er allur að koma aftur og þetta er bara á uppleið,“ sagði Gísli sem vonast að sjálfsögðu til að fá tækifæri í leikjunum gegn Svíum.
„Það yrði frábært og vonandi get ég hjálpað liðinu eitthvað,“ sagði Gísli að lokum.
Gísli Þorgeir: Handbolti spyr ekki um aldur

Tengdar fréttir

Tuttugu ára aldursmunur á leikmönnum A-landsliðsins
Það munar rétt tæplega tuttugu árum á tveimur leikmönnum íslenska A-landsliðsins í handbolta sem er að fara mæta Svíum í tveimur vináttulandsleikjum í Laugardalshöllinni á næstu dögum.