Lífið

Kaffipokar fá nýtt líf

Sigríður Inga Sigurðardóttir skrifar
Astrid hefur alla tíð haft mikinn áhuga á handavinnu og virðist allt leika í höndunum á henni.
Astrid hefur alla tíð haft mikinn áhuga á handavinnu og virðist allt leika í höndunum á henni.
Ég endurnýti notaða kaffipoka, þeir eru þvegnir og klipptir í renninga sem ég skáflétta svo úr verður taska eða karfa,“ segir Astrid Björk Eiríksdóttir brosandi. „Ég vel kaffipoka sem fara vel saman hvað varðar lit og áferð. Eina hættan er sú að maður kaupi kaffi eftir því í hvernig pokum það er, en ekki eftir bragðinu,“ segir hún hlæjandi og bætir við að hingað til hafi ekki verið mikið vandamál að fá kaffipoka til að flétta úr. „Ég drekk heilmikið kaffi sjálf en fólk hefur einnig boðið mér kaffipoka og þetta safnast einhvern veginn saman.“

Taska úr kaffipokum. MYNDir/EYÞÓR
Töskur úr kaffipokum eru bæði slitsterkar og léttar, að sögn Astridar, og endast vel. „Ég fléttaði stóra tösku fyrir tveimur árum og nota hana oft þegar ég fer út í búð. Hún hefur reynst afbragðsvel og það er tilvalið að nota hana í staðinn fyrir plastpoka. Mér finnst líka gaman að flétta litlar buddur og töskur og hef áhuga á að þróa það áfram.“

Kaffipokar verða að hátísku í meðförum Astridar.
Fléttað úr birkiberki

Astrid er ekki alveg ókunnug handverki af þessu tagi. Svíþjóð hefur um árabil verið hennar annað heimili og þar í landi er löng hefð fyrir því að flétta muni á borð við körfur og skó úr birkiberki. „Sú aðferð er ekki ólík þeirri sem ég nota við að flétta úr kaffipokum. Finnsk vinkona mín kenndi mér þessa aðferð og þetta hefur þróast þannig að ég kenni grunnnámskeið í skáfléttun hjá Heimilisiðnaðarskóla Íslands.“

Áhugi Astridar á handavinnu kviknaði strax í æsku og hún var aðeins fjögurra ára þegar hún lærði að prjóna. „Það kom þannig til að mamma var að prjóna lopapeysu og mig langaði til að gera eins og hún og það leið ekki á löngu þar til ég var búin að prjóna teppi í dúkkuhúsið mitt. Á sumrin fór ég til Svíþjóðar til afa og ömmu og þar voru engir krakkar til að leika við en amma var dugleg að hjálpa mér við að prjóna peysur og ýmsa aðra handavinnu svo ég hafði nóg fyrir stafni. Ég hlakkaði alltaf til handavinnutímanna í grunnskóla og bókstaflega lifði fyrir þá tíma,“ rifjar Astrid upp.

Skart sem er gert með orkeringu.
Endurvakti orkeringu

Á unglingsárunum lærði Astrid orkeringu en það er gamalt handverk sem tilheyrir íslenska þjóðbúningnum og var um tíma við það að deyja út. „Þegar ég var komin í gaggó langaði mömmu að kenna mér að orkera en hún hafði lært það í sínum heimabæ, Vík í Mýrdal. Orkering er í raun nokkuð flókið handverk en um leið og ég náði góðum tökum á að orkera fannst mér það auðvelt og ekki síður skemmtilegt. Ég fór á fullt að orkera blúndur og seldi til þeirra sem voru að sauma sér peysuföt. Svo var ég beðin um að kenna orkeringu við Heimilisiðnaðarskólann og ákvað að slá til og hef nú haldið námskeið í nokkur ár,“ segir Astrid. „Mér finnst gaman að halda þessu gamla handverki við og hef þróað það áfram og bý líka til skart með þessari aðferð.“

Þegar Astrid er spurð hvort hún selji töskurnar eða skartið sem hún gerir svo listilega vel segir hún svo ekki vera. „Ekki enn þá en það er aldrei að vita hvað verður í framtíðinni,“ segir hún sposk að lokum.



Nánari upplýsingar um skáfléttun á kaffibokum má fá á vefsíðu Heimilisiðnaðarfélags Íslands, www.heimilisidnadur.is Í kvöld hefst námskeið með Astrid. 

Astrid lærði orkeringu þegar hún var unglingur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×