Skoðun

Bjóddu þeim eldri með þér á kjörstað

Guðrún Ágústsdóttir skrifar
Aðeins hefur verið rætt um kosningaþátttöku eftir aldri og kynjum. Komið hefur fram að um og innan við helmingur þeirra sem eru 29 ára og yngri fer á kjörstað. Þetta byggist á upplýsingum um þátttöku í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 2014. Kosningaþátttaka í heild hefur verið mikil hér á landi miðað við grannríki okkar. En kosningaþátttaka hefur farið minnkandi, því miður. Þannig fóru aðeins 64% karla og 62% kvenna á kjörstað 2014. Í næstu kosningum á undan fóru 74% á kjörstað, sama hlutfall karla og kvenna. Hæst hefur kosningaþátttakan í Reykjavík á umliðnum áratugum til borgarstjórnar farið í um 90%; síðast 1974.

Reykjavíkurborg gaf út fyrir nokkru ansi fróðlegan bækling sem heitir „kynlegar tölur“. Þaðan eru tölurnar hér á undan.

Yfirleitt er kosningaþátttaka aldursflokkanna svipuð eftir kynjum. Þar kemur reyndar fram að það eru áberandi færri karlar sem kjósa en konur á aldrinum 25 til 49 ára. Af hverju er það?

En það sem er mest sláandi er að kosningaþátttaka kvenna minnkar meira en karla þegar ofar dregur í aldri. Þannig kjósa 74% kvenna en 81% karla í aldurshópnum 75-79 ára. En eftir 80 ára aldur snarlækkar hlutfall kvenna enn; þegar þangað er komið kýs 71% karla en aðeins 57% kvenna. Af hverju er það? Það hefur ekki verið kannað. Er það kannski vegna þess að karlarnir á þessum aldri eru frekar með bílana en konurnar? Hvað veldur?

Þess vegna varð þessi fyrirsögn til sem merkir þessa grein: Bjóddu þeim eldri með á kjörstað!

 

Höfundur er formaður öldungaráðs Reykjavíkurborgar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×