Skoðun

Kæra unga fólk!

Lilja Guðmundsdóttir skrifar
Í dag eru stjórnmálin á allra vörum, flokkar lofa upp í ermina á sér hægri vinstri og reyna að kaupa sér atkvæði. Ungt fólk hefur eflaust veitt því athygli enda er það hvatt sérstaklega til að kjósa. Samt bara til að kjósa rétt! Kaupin geta verið margskonar, allt frá því að ungt fólk hugsi sjálfstætt í að það fái skutl uppá kjörstað með kippu af bjór. Nei, ég segi svona.

Það þekkist auðvitað ekki að unga fólkið kjósi annan flokk en foreldrarnir, eða hvað? Rétt eins og að halda með röngu liði í fótboltanum. Maður á bara að halda með sama flokknum sama hvað gerist, ride or die, panama og wintris. Nei, ég segi svona.

Hvað veldur því að ungt fólk fer ekki að kjósa? Jú, það kynnist ekki stjórnmálum fyrr en það verður 18 ára og á þá allt í einu að kjósa. Skólinn sinnir þessu hlutverki lítið og unga fólkið lítið að velta þessu fyrir sér. Svo eru flokkarnir margir og hlaðborð loforðanna er stórt. En það er samt engin afsökun. Málið er að ef þú kýst ekki, þá hefur þú tæplega ekki rétt til að hafa skoðanir á samfélaginu! Það skipti engu máli hvort þú kýst rétt, rangt eða segir ekki frá því hvað þú kaust, það skiptir heldur ekki máli hvort flokkurinn sem þú kaust sveik öll loforðin sín. Það væri þá ekki í fyrsta sinn. En það er þinn réttur að kjósa og ábyrgð sem virkur samfélagsþegn að bara hunskast til að f***ing kjósa!

Ef þú veist ekki hvað þú átt að kjósa þá tekurðu kosningarpróf, ferð á kosningarviðburði eða kíkir á stefnumál flokkanna. Þetta tekur engan tíma, eða álíka langan tíma og að finna nýjan vin á Tinder.

Kæra unga fólk, (ég þar með talin), gerum betur! Við erum alveg ágæt, við drekkum minna og tökum minna af eiturlyfjum en fyrri kynslóðir, við erum virk og vel gefin. Gerum enn betur og kjósum í þokkabót! Svo eru tónleikar í verðlaun á laugardaginn ( #vakan ) og hver elskar ekki tónleika.

Ekki vera heilalaus, taktu meðvitaða ákvörðun um þína framtíð og kjóstu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×