Skoðun

Orkan og álið

Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar

Liðna helgi var umfjöllun á Sprengisandi um hækkað raforkuverð, raforkuskort og forgangsorku til almennings. Í framhaldi af þeirri umfjöllun er rétt að eftirfarandi komi fram:

Hreina orkan á Íslandi er auðlind og fyrir hana fær þjóðin tekjur m.a. í formi arðgreiðslna til Landsvirkjunar. Áætlað keyptu álverin raforku fyrir rúma 68 milljarða á árinu 2023 og það sama ár greiddi Landsvirkjun 30 milljarða arð í ríkissjóð.

Álverin hafa tekið á sig orkuskerðingar þegar vatnsstaða í uppistöðulónum Landsvirkjunar er óhagstæð og þar með má segja að almenningur og smærri fyrirtæki njóti forgangs í slæmum vatnsárum. Það ber þó að hafa í huga að þessar skerðingar kosta þjóðina; í skertum útflutningstekjum og minni umsvifum álveranna vegna kaupa á vöru og þjónustu. Samtök iðnaðarins áætluðu að útflutningstekjur þjóðarinnar hefðu minnkað um 14 til 17 milljarða á árinu 2023 vegna skerðinga Landsvirkjunar á raforku til orkusækins iðnaðar.

Það er ekkert fararsnið á íslensku álverunum og þau eiga nóg eftir af líftíma sínum, sem betur fer, því þau standa undir um fimmtungi af útflutningstekjum þjóðarinnar og langtíma samningar um sölu á raforku tryggja íslensku orkufyrirtækjunum fyrirsjáanleika og stöðugleika í rekstri. Hjá álverunum á Íslandi starfa um 2000 manns og annar eins fjöldi í afleiddum störfum.

Það er mikið ábyrgðarleysi að kasta því fram að það þurfi ekki að loka nema eins og einu álveri til að klára orkuskiptin. Eftirspurn eftir áli er mikil og ekkert bendir til annars en hún fari vaxandi. Íslensku álverin skipta þjóðina máli og heimsbyggðina alla, því það er jú hér á Íslandi sem við framleiðum ál með lægst kolefnisspor í heimi; það er mikilvægt framlag þjóðarinnar til loftslagsmála.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls.




Skoðun

Sjá meira


×