Skoðun

Réttindi og tækifæri til jafns við aðra

Páll Valur Björnsson skrifar
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur 13. desember 2006 með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 61/611. Hann var lagður fram til undirritunar 30. mars 2007 og undirritaður fyrir Íslands hönd sama dag.

Það tók okkur Íslendinga hvorki meira né minna en tæpan áratug að fullgilda þennan mikilvæga mannréttindasamning en það var gert með á haustmánuðum 2016. Með því skuldbatt íslenska ríkið sig til að framfylgja ákvæðum samningsins. Þegar Ísland loks fullgilti samninginn höfðu langflest ríkinu þegar þegar gert það.

Í ljós kom þegar ég setti fram breytingartillögu við þingsályktun um fullgildingu samningsins þess efnis að mikilvægur valfrjáls viðauki við samninginn yrði einnig fullgiltur að ekki hafði verið neitt unnið með hann. Fullgilding viðaukans veitir einstaklingum og hópum heimild til að skjóta málum sínum til eftirlitsnefndar með samningnum hafi þeir árangurslaust fullreynt leiðir innanlands til að fá þann rétt sem samningurinn veitir þeim. Fullgilding viðaukans veitir því mannréttindum fatlaðs fólks mikilvæga vernd og stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald. Eftir mikil átök um afgreiðslu þess máls fékkst loks samþykkt breytingartillaga mín þess efnis að valfrjálsi viðaukinn skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017.

Það er eitt af forgangsmálum okkar í Samfylkingunni að valfrjálsi viðaukinn verði fullgiltur fyrir lok þessa árs í samræmi við þessa ályktun Alþingis og að samningurinn sjálfur og notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest eigi síðar en á vorþingi 2018. Það yrði gífurlega stór áfangi í réttindabaráttu fatlaðs fólks og enn stærra skref að því markmiði að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn, án mismununar og aðgreiningar og við mannsæmandi lífskjör.

En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið og stjórnvöld verða að einhenda sér í það að afnema skerðingar á bótum fatlaðs fólks vegna atvinnutekna sem það kann að geta aflað sér þrátt fyrir veruelga skerta starfsgetu. Stjórnvöld verða einnig að ganga undan með góðu fordæmi og tryggja fötluðu fólki tækifæri til að nýta starfsgetu sína. Það er til lítils að láta fólk ganga í gegnum starfsgetumat ef það kemur alls staðar að lokuðum dyrum á vinnumarkaði. Það er beinlínis á valdi stjórnvalda að finna fötluðum vinnu hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og hjá fyrirtækjum sem ríki og sveitarfélög eiga að öllu leyti eða að hluta. Síðan þurfa stjórnvöld að finna leiðir sem virka til að hvetja einkafyrirtæki til þess sama og veita þeim uppbyggilegt aðhald í því skyni, jafnvel með setningu viðeigandi laga og reglna ef önnur ráð ekki duga.

Fatlað fólk verður án tafar að fá að njóta í verki en ekki aðeins í orði þeirra mannréttinda sem því hefur allt of lengi verið neitað um eins og íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að tryggja með fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. 

Fyrir því hef ég barist og fyrir því munum við í Samfylkingunni berjast af fullum krafti.

Páll Valur Björnsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar í 2. sæti Reykjavík norður.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×