Skoðun

Mun ástandið versna?

Ingimar Einarsson skrifar
Þann 21. júní sl. stóð KPMG á Íslandi fyrir fræðslufundi fyrir stjórnendur innan heilbrigðisþjónustunnar og aðra sem eru áhugasamir um stefnumótun í heilbrigðismálum.

Aðalfyrirlesarinn á samkomunni, Mark Britnell, stjórnarformaður KPMG Global Health, leitaðist við að svara spurningunni um hvort hið fullkomna heilbrigðiskerfi sé í raun og veru til. Erindi hans var byggt á athugunum KPMG á heilbrigðiskerfum um 70 landa.

Glöggt er gestsaugað

Niðurstaða Mark Britnell er sú að heilbrigðiskerfi þróaðra landa séu í grunninn svipuð, en í samanburði milli landa skeri einstakir þættir sig úr, að því er varðar gæði heilbrigðisþjónustu. Við uppbyggingu góðs heilbrigðiskerfis mætti þannig leita fyrirmynda til þeirra landa sem best standa á hverju sviði fyrir sig.

Í tengslum við Íslandsheimsóknina hafði Mark Britnell kynnt sér skipulag heilbrigðisþjónustunnar og heimsótt Landspítala. Hann lýsti þeirri skoðun að ef ekki verði gerðar viðeigandi ráðstafanir í heilbrigðismálum á Íslandi muni ástandið sennilega eiga eftir að versna. Ekki þurfi aðeins breytingar á sjúkrahús- og öldrunarþjónustunni, heldur verði að efla samstarf og samtal á milli grunnþjónustu og sértækrar heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisáætlun

Á tíunda áratug síðustu aldar var rætt mikið um forgangsröðun og stefnumótun í heilbrigðismálum hér á landi. Það leiddi til þess að Alþingi samþykkti á vormánuðum 2001 heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Sú vinna virðist hafa farið fram hjá Mark Britnell því hann undraðist að hafa ekki séð nein merki um langtímaáætlanir í heilbrigðismálum á Íslandi.

En tekið skal undir með honum að mikilvægt sé að setja sér skýr markmið og gera heilbrigðisáætlun til lengri tíma.

Óbreytt hlutdeild

Í þessu samhengi er fróðlegt að líta á fjármál hins opinbera árið 2016, sem Hagstofan gerði nýlega grein fyrir í riti sínu, Hagtíðindum. Þar kemur fram að heildarútgjöld til heilbrigðismála hafi numið 8,6% af vergri landsframleiðslu (VLF) á árunum 2015 og 2016. Það þýðir að hlutdeild heilbrigðiskerfisins í verðmætasköpuninni hefur haldist óbreytt bæði þessi ár. Það er því langt í land að ná því markmiði að verja 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál. (Hvert prósentustig í VLF 2016 var 24,2 milljarðar króna).

Vaxandi þjónustuþörf

Stjórnvöldum hefur ítrekað verið bent á að mikil fjölgun aldraðra kalli á aukna sjúkrahúsþjónustu á næstu áratugum. Mannaflaspár sýna að á næstu tveimur áratugum muni fjöldi íbúa 65 ára og eldri nær tvöfaldast og verða meira en 20% mannfjöldans árið 2035. Þrátt fyrir það virðist lítið vera gert til að mæta ört vaxandi þjónustuþörf þessa þjóðfélagshóps. Á Landspítala ríkir þegar neyðarástand vegna skorts á úrræðum fyrir hjúkrunarsjúklinga sem lokið hafa meðferð og bíða eftir vistun í hjúkrunarrýmum. Frambjóðendur til Alþingis mættu hafa þessar staðreyndir í huga og ekki síst þeir sem munu taka að sér að mynda næstu ríkisstjórn.

Höfundur er félags- og stjórnmálafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×