Innlent

Inga Sæland kveðst alltaf hafa verið jafnaðarmaður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Inga Sæland á kosningavöku Flokks fólksins á kosninganótt.
Inga Sæland á kosningavöku Flokks fólksins á kosninganótt. Vísir/Ernir
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist aldrei hafa spáð í vinstri eða hægri og kveðst alla tíð hafa verið jafnaðarmaður. Þá segist hún aldrei hafa kosið Alþýðubandalagið eða Vinstri græna en eftir að Flokkur fólksins náði kjöri á þing hafa margir velt því fyrir sér hvort að flokkurinn sé hallist frekar til vinstri eða hægri. Inga ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„„Ég er bara jafnaðarmaður. Ég hef alla tíð verið það, alltaf verið jafnaðarmaður. Ég hef aldrei spáð í vinstri, hægri en ég sagði þarna einhvern tímann um daginn þegar það er alltaf verið að setja mann á einhvern skala þá sagði ég náttúrulega að það hefði verið þessi tilhneiging til að setja þessa flokka og kalla þá velferðarflokka og um leið að líta til vinstri. Ég var ekkert að segja að ég væri að gera það, alls ekki, það bara „Segðu eitthvað,“ og það er bara tvistað út úr þér og búið til eitthvað úr því. Þannig að ég verð að fara að passa mig,“ sagði Inga aðspurð hvort hún væri vinstrisinnuð eða hægrisinnuð.

Segir Sigmund elskulegan mann

Þá ræddi hún einnig bílferð sem vakti mikla athygli mánudaginn eftir kosningar er hún sat í aftursætinu hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, en hann var sá fyrsti sem Inga heyrði í að loknum kosningum. Um bílferðina sagði Inga:

„Það varð mjög frægt og það þótti mér mjög skemmtilegt því eins og ég hef gjarnan sagt, og ég vil gjarnan halda því áfram, að vera ekki einhver dæmigerður pólitíkus með einhver klækjabrögð. Ég er ekki þannig. Svo ég segi bara hlutina þó að það komi eins og gusa á allt og alla. Í þessu tilviki, þá náttúrulega af því að ég hef ekki bílpróf því ég er sjónskert, og við vorum að spjalla þarna saman í svona hálftíma um allt hvað eina og afskaplega elskulegur maður, Sigmundur. Hann er að fara þarna á Bessastaði klukkan tvö og bílstjórinn hafði þá ekkert að gera á meðan nema þá að bíða eftir honum.“

Hún sagði að Sigmundur hefði þá boðið henni að bílstjórinn myndi skutla henni heim á meðan hann fundaði með forsetanum.

„Ég þakkaði bara fyrir það og sat þarna bísperrt í aftursætinu á meðan við keyrðum þarna fyrir framan tuttugu blaðamenn og jafnvel enn fleiri myndavélar. Það sem mér þótti merkilegast í þessu og fékk mig til að hugsa hvað þetta væri allt skrýtið, það var sko leynifundur. Þetta er bara svo mikill húmor, bara gantagrín, því auðvitað er enginn leynifundur fyrir framan tuttugu blaðamenn og fjörutíu myndavélar,“ sagði Inga en það var einmitt Sigmundur sem orðaði það svo við blaðamenn eftir fund sinn með forseta að hann og Inga hefðu verið á leynifundi.

Viðtalið við Ingu Sæland úr Bítinu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Inga Sæland í aftursætinu hjá Sigmundi á Bessastöðum

Athygli vakti að þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kom til Bessastaða á fund forseta Íslands nú fyrir stuttu að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins var í aftursæti bifreiðar hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×