Innlent

Eva María og Eliza forsetafrú heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Eva María og Eliza forsetafrú heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari.
Eva María og Eliza forsetafrú heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari. Skjáskot
UN Women á Íslandi hefur sett af stað söfnunarátak fyrir konur og stúlkur á flótta frá Sýrlandi. Eliza Reid, forsetafrú Íslands og  Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. 80 prósent þeirra sem dvelja þar eru konur. Á griðastöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín.

Eins og sjá má í myndbandni söfnunarátaksins búa konur og stúlkur í Zaatari flóttamannabúðunum við grimman veruleika. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný.

Hundruð kvenna á biðlista

Ein af hverjum þremur konum í Zaatari búðunum hefur verið gift á barnsaldri en stúlkur og konur þar eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi. Fimmta hver kona í Zaatari búðunum er fyrirvinna fjölskyldunnar en atvinnutækifæri fyrir konur í Zaatari eru sárafá.

Til að sporna við ofbeldinu, aukningu barnahjónabanda og fátækt í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu, þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Þökk sé griðastöðum UN Women geta konur lifað með reisn og virðingu í erfiðum aðstæðum.

Aðsóknin í griðastaði UN Women er gríðarleg og eru hundruð kvenna eru á biðlista eftir að komast að. Til að byggja upp griðastaði UN Women þarf aukið fjármagn og því var þessi neyðarsöfnun sett af stað. 

Hægt er að styrkja söfnunina með því að senda sms-ið KONUR í 1900 og veita þannig sýrlenskum konum á flótta atvinnu, öruggt skjól og nýtt upphaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×