Erlent

Trump sagður kenna tengdasyni sínum um Rússarannsóknina

Samúel Karl Ólason skrifar
Jared Kushner og Ivanka Trump, eiginkona hans og dóttir Donald Trump.
Jared Kushner og Ivanka Trump, eiginkona hans og dóttir Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður kenna Jared Kushner, ráðgjafa og tengdasyni sínum, um stofnun embættis sérstaks saksóknara dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Robert Mueller, vegna aðkomu hans að brottrekstri James Comey, fyrrverandi yfirmanns Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI).

Embætti Mueller rannsakar afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra og mögulega aðkomu framboðs Trump að afskiptunum. Þá er einnig til rannsóknar hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með því að reka James Comey.

Upprunalega sagði Trump að hann hefði rekið Comey vegna tölvupóstamáls Hillary Clinton og að dómsmálaráðuneytið hefði lagt það til. Síðar sagði Trump í sjónvarpsviðtali að honum hefði verið illa við rannsókn FBI, sem þá var að rannsaka afskipti Rússa, og að því hefði hann rekið James Comey.

Embætti sérstaks saksóknara var stofnað í framhaldi af því.

Trump tísti í gærkvöldi um að þáttur sem hann horfði á á Fox hefði verið sorglegur. Hann hefði fjallað um FBI og að James Comey hefði verið hræðilegur yfirmaður stofnunarinnar.

Comey naut hins vegar virðingar utan stofnunarinnar og var vinsæll innan hennar.

Samkvæmt heimildum CNN hafa rannsakendur verið að spyrjast fyrir um aðkomu Kushner að þeirri ákvörðun að reka Comey og einnig hlutverki hans á fundi starfsmanna framboðs Trumps og nokkurra Rússa í Trump Tower í júní í fyrra.

Sá fundur var skipulagður eftir að Donald Trump yngri var sagt að rússnesk yfirvöld vildu koma upplýsingum til þeirra sem myndu reynast Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, illa.

Sjá einnig: „Ég elska það“: Trump yngri birtir tölvupóstana

Heimildarmenn CNN innan Hvíta hússins segja Kushner þó ekki vera til rannsóknar. Hann hafi veitt Mueller umrædd gögn að eigin frumkvæði. Þar að auki hafi hann áður veitt umrædd gögn til rannsóknarnefndar þingsins.

Samkvæmt Vanity Fair kennir Trump tengdasyni sínum um að Robert Mueller hafi verið skipaður í embættið. Samkvæmt heimildum miðilsins ræddi Trump við Stephen Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafa sinn og núverandi stjórnarformann Breitbart, um rannsókn Mueller og kenndi hann Kushner um. Þá sérstaklega fyrir aðkomu hans að brottrekstri Comey og einnig að brottrekstri Michael Flynn.

Bannon er meðal þeirra bandamanna Trump sem hafa hvatt hann til að berjast gegn rannsókn Mueller og þá meðal annars með því að skera niður fjárveitingar til rannsóknarinnar.

Sjá einnig: Ákvörðun Trump „stærstu mistök í sögu nútímastjórnmála“

Í frétt Vanity Fair segir einnig að Bannon hafi ráðlagt Trump varðandi það hvernig hann gæti barist gegn rannsókn Mueller og þar á meðal með því að ráða betri og árásagjarnari lögmenn.

Haft er eftir ónefndum og nefndum heimildarmönnum að Kushner sé talinn einhver versti ráðgjafi sem starfað hafi í Hvíta húsinu um árabil.

„Ég er bara að segja opinberlega það sem allir eru að tala um á bakvið tjöldin hjá Fox, íhaldssömum fjölmiðlum og í báðum deildum þingsins,“ segir Sam Nunberg, fyrrverandi starfsmaður forsetaframboðs Trump.


Tengdar fréttir

Tengdasonur Trump afhendir gögn vegna Rússarannsóknar

Jared Kushner, tengdasonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur afhent Robert Mueller, sérstökum saksóknara í rannsókninni afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum í fyrra og hugsanlegu samráði þeirra við framboð Trump, gögn í tengslum við rannsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×