Erlent

Suu Kyi heimsækir Rakhine-hérað

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Suu Kyi hefur verið gagnrýnd taka ekki á ofsóknunum.
Suu Kyi hefur verið gagnrýnd taka ekki á ofsóknunum. Nordicphotos/AFP
Aung San Suu Kyi, ríkisráðgjafi og leiðtogi Mjanmar, heimsótti Rakhine-hérað í gær í fyrsta sinn síðan hún tók við embætti. Rúmlega hálf milljón Róhingja hefur flúið héraðið frá því í ágúst vegna ofsókna og hefur mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna sakað ríkisstjórn Mjanmar um að standa í þjóðernishreinsunum.

Ekki er vitað hvort Suu Kyi muni heimsækja einhvern þeirra 200 bæja Róhingja sem herinn er sagður hafa brennt til grunna með aðstoð annarra héraðsbúa eða hvort hún muni heimsækja þau þúsund Róhingja sem búa í búðum við fljótið Maungdaw í von um að komast til Bangladess.

Amnesty International hefur bæst í hóp þeirra samtaka sem gagnrýna ofsóknirnar en í nýrri skýrslu samtakanna segir að mannréttindabrot hersins gegn Róhingjum séu svæsin. Herinn hafi meðal annars drepið hundruð Róhingja. Í skýrslunni er því lýst hvernig herinn heyir „kerfisbundið og vægðarlaust“ stríð gegn Róhingjum.

„Í þessari vel útfærðu herferð hafa öryggissveitir Mjanmar hefnt sín grimmilega á gjörvöllu Róhingja-fólkinu í norðurhluta Rakhine-héraði í augljósri tilraun sinni til að hrekja það úr landi. Þessi voðaverk hafa leitt til verstu flóttamannaneyðar í áratugi á svæðinu,“ er haft eftir Tirana Hassan, framkvæmdastjóra neyðarviðbragða hjá Amnesty International. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×