Innlent

Notum næstum tvöfalt meira af ópíóðum en Svíar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Íslendingar nota miklu meira af sterkjum verkjalyfjum sem innihalda ópíóða en hinar Norðurlandaþjóðirnar og dauðsföll vegna ofskömmtunar slíkra lyfja fara vaxandi hér á landi. Á síðasta ári notuðu Íslendingar næstum því tvöfalt meira af ópíóðum en Svíar.

Aðeins í Bandaríkjunum látast fleiri einstaklingar vegna lyfjanotkunar en á Íslandi samkvæmt frétt New York Times sem birtist í ágúst en þar er miðað við dauðsföll vegna lyfjanotkunar á hverja þúsund íbúa. Í Bandaríkjunum er faraldur vegna notkunar verkjalyfja sem innihalda ópíóða en á síðustu árum hafa tvö hundruð þúsund Bandaríkjamenn látist vegna ofskömmtunar slíkra lyfja. Morfín og heróín eru dæmi um ópíóða. Stór hluti þeirra Bandaríkjamanna sem hafa látist vegna ofskömmtunar ánetjuðust ópíóðum með notkun verkjalyfja eins og Oxycodone. 

Eins og sést á þessari tölfræði frá embætti landlæknis nota Íslendingar miklu meira af verkjalyfjum sem innihalda ópíóða en hinar Norðurlandaþjóðirnar sé miðað við dagskammta á hverja þúsund íbúa. Á síðasta ári notuðu Svíar 14,8 dagskammta af ópíóðum og Norðmenn 17,3 dagskammta á meðan við Íslendingar notuðum 26,4. Við notuðum semsagt næstum því tvöfalt meira af ópíóðum en Svíar í fyrra.

„Það eru engar vísbendingar um að það sé meiri verkjavandi á Íslandi. Þetta virðist vera mjög gömul hefð hér á landi að margir fái mikið af ávanabindandi lyfjum. Þar á meðal verkjalyfjum,“ segir Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri lyfjamála hjá Embætti landlæknis. 

Skýrist af mikilli notkun Parkódín forte

Séu verkjalyf með ópíóðum brotin niður eftir tegundum kemur í ljós að blandaða verkjalyfið Parkódín forte stendur undir stærstum hluta notkunarinnar á Íslandi. Embætti landlæknis engar haldgóðar skýringar á því hvers vegna lyfið er svona mikið notað hér. 

„Það er Parkódín forte sem við Íslendingar erum að skera okkur úr með. Það virðist vera mikið um langvarandi notkun lyfsins meðal fólks og því sé of oft ávísað við vægum verkjum og í of stórum skömmtum,“ segir Ólafur en Parkódín forte getur verið mjög ávanabindandi og er skaðræðislyf í hugum margra. Ólafur segir að verðlagning skammtastærða spili þar inn í en pakki með 100 töflum af Parkódín forte kosti svipað og pakki með 40 töflum. Því séu læknar oft að reyna að koma til móts við sjúklinga vegna verðlagningar. 

Sérstaka athygli vekur að notkun Oxycodons hefur aukist um 335 prósent á síðastliðnum áratug samkvæmt gögnum frá Lyfjastofnun en þetta er lyfið sem hefur verið hvað mest í umræðunni í Bandaríkjunum þar sem notkun verkjalyfja með opíóðum er meiriháttar heilbrigðisvandamál.

Flest dauðsföll vegna ofskömmtunar ópíóða vestanhafs eru í Vestur-Virginíu. Ólafur B. Einarsson segir að vandinn á Íslandi sé ekki orðinn neitt í líkingu við stöðuna vestanhafs en á síðasta ári létust átján manns vegna ofskömmtunar ópíóða hér á landi. Ef fjöldi dauðsfalla vegna ópíóða í Vestur-Virginíu væri umreiknaður á Ísland þá jafngildir það því að 139 hefðu látist hér á landi á síðasta ári vegna ofskömmtunar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×