Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - Fjölnir 41-29 | FH burstaði Fjölni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Varnarmenn Fjölnis réðu lítið við Einar Rafn Eiðsson og félaga í FH.
Varnarmenn Fjölnis réðu lítið við Einar Rafn Eiðsson og félaga í FH. vísir/eyþór
FH er enn með fullt hús stiga í Olís-deild karla eftir öruggan sigur á Fjölni, 41-29, í Kaplakrika í kvöld. Þetta var frestaður leikur úr 6. umferðinni, en FH liðið var sterkari gegn Fjölni þar sem mikið hafði gengið á síðustu vikur.

Fjölnir byrjaði betur, en FH seig hægt og rólega á. Hafnarfjarðarliðið var ólíkt sjálfum sér í byrjun; hægir, fyrirsjáanlegir og Fjölnismenn voru sprækir og voru mættir í Fjörðinn til að finna fyrir sér. Staðan jöfn, 5-5 eftir tólf mínútur.

FH tók þá við sér og skoruðu þrjú næstu mörk með agaðari sóknarleik og betri hreyfanleika varnarlega. Ágúst Elí og Ingvar voru að verja vel í mörkunum, en þegar liðin gengu til búningsherbergja munaði þremur mörkum, 17-14. Fjölnismenn skoruðu tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks.

Í síðari hálfleik varð þetta svo leikur kattarins að músinni. Deildarmeistararnir rúlluðu yfir nýliðanna í síðari hálfleik og skoruðu að lokum 41 mark gegn 29 mörkum gestanna.

FH er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar með þriggja stiga forskot á Val, en Fjölnir er enn án sigurs. Þeir eru með tvö stig.

Afhverju vann FH?

Það þarf ekki að fara í neinar grafgrötur með það að FH er bara einfaldlega betra handboltalið en Fjölnir. Þeir voru sterkari á öllum vígstöðvum handboltans ef undan eru skildar fyrstu tíu mínútur leiksins þar sem Fjölnir sýndi flotta takta.

FH spilaði ágætis vörn og þegar þeir létu boltann ganga sóknarlega fundu þeir færi á götóttri vörn Fjölnismanna. Að endingu mjög sanngjarn sigur FH sem rúllaði yfir nýliðanna í síðari hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Rafn Eiðsson átti auðvelt með að rölta í gegnum vörn Fjölni í, en hann skoraði að endingu níu mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson bætti við öðrum góðum átta mörkum. Ágúst Elí átti góðan leik í marki FH, með yfir 50% markvörslu.

Kristján Örn Kristjánsson og Björgvin Páll Rúnarsson báru algjörlega uppi sóknarleik Fjölnismanna. Það vantaði ógnir frá fleiri stöðum. Ingvar Kristinn varði ágætlega vel í markinu í fyrri hálfleik, en vörnin var ekkert að hjálpa markvörðum Fjölnis.

Hvað gekk illa?

FH mætti illa til leiks, en náðu tiltölulega fljótt að vinna sig út úr þeim vandræðum, ef vandræði mætti kalla. Fjölnismönnum gekk afar illa að standa almennilegan varnarleik, en hann var ekki til útflutnings. Einnig vantaði að fleiri lögðu sóknarleik Fjölnis lið, en bæði lið gerðu sig oft sek um afar klaufaleg mistök oft á tíðum.

Í síðari hálfleik misstu Fjölnismenn algjörlega hausinn og FH-ingar rúlluðu yfir nýliðanna. Fjölnismenn fóru að flýta sér um of og gerðu sig seka um mistök sem gott lið eins og FH refsar.

Hvað gerist næst?

FH lítur ansi vel út. Þeir eru á toppnum með fjórtán stig, fullt hús stiga, og þremur meira en Valur sem er í öðru sæti. FH spilar gegn ÍR á mánudag. Fjölnismenn eru enn að leita að sínum fyrsta sigri, en þeir eru einungis með tvö stig eftir sjö leiki. Þeir eiga granna sína í Fram á sunnudag.

Arnar: Aðrir sem verða að leysa þetta mál

„Mér fannst lokastaðan aðeins of stór, en þetta er langbesta lið deildarinnar. Margt sem við reyndum gekk upp, en þeir eru með bestu vörnina, eru rútíneraðir og vel þjálfaðir svo við vissum að þetta yrði krefjandi,” sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis.

„Við erum líka að gera okkur seka um ansi klaufaleg mistök og það kostar bara mörk í bakið. Þeir eru bara það góðir, en kannski hefði ég átt að rúlla liðinu aðeins meira.”

„Mér fannst menn vera þokkalega ferskir, en við fórum í verri skot og nýttum okkar verr. Það er munur á deildum; FH refsar á meðan liðin í neðri deildunum gera það ekki.”

„Við erum á réttri leið og bætum okkar leik reglulega. Við þurfum bara fara hala inn fleiri stigum. Ég er fullviss um að það takist.”

Mikið hefur gengið á í Grafarvoginum undanfarnar vikur. Arnar var rekinn af formanninum, en ekki stjórninni og að endingu stóð hann enn sem þjálfari. Hvernig horfði þetta við Arnari?

„Eins og gefur að skilja var þetta ekki skemmtilegt. Ég átti góðan fund í gærkvöldi með formanni aðalstjórnar í gærkvöldi og sá fundur var mjög góður. Það eru aðrir sem verða að leysa þetta mál en ég,” en hefur þetta ekki einhver áhrif á leikmenn liðsins svona farsi?

„Jú, einhver, en mér fannst við nýta þetta til góðs. Það er góð samheldni í þessu liði og við erum flott liðsheild. Ég hefði ekki áhyggjur að það myndi brotna. Mér fannst menn nýta þetta frekar í góðar æfingar og þessi leikur ekki alslæmur.”

Hefur Arnar rætt við formanninn eftir að þetta gerðist? „Já, stuttlega,” og gekk það vel? „Ég ætla ekki að fara út í það,” sagði Arnar að lokum.

Halldór: Næsta verkefni alltaf það mikilvægasta

„Ég vissi að ef við myndum spila góðan leik þá gætum við unnið með einhverjum mörkum, en þeir veittu okkur fína keppni í 40 mínútur,” sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, í samtali við Vísi í leikslok.

„Þeir spiluðu kafla í fyrri hálfleik mjög vel, en þegar við komumst inn i leikinn almennilega þá fannst mér við spila virkilega vel. Við skoruðum 41 mark og ég get ekki kvartað yfir því.”

„Það eru ákveðnir hlutir varnarlega sem við hefðum getað gert betur, en fyrst og fremst góð frammistaða. Að vinna á heimavelli með tólf mörkum er ekkert sjálfgefið svo þetta er mjög gott.”

FH-ingar voru dálítið hægir og fyrirsjáanlegir fyrstu mínúturnar en leið og þeir létu boltann vinna og fóru að vinna stöðurnar einn gegn einum opnuðust flóðgáttir.

„Við vissum ef við myndum gera ákveðna hluti vel þá myndum við ná forskoti og gera góða hluti. Við vorum að klikka í byrjun, tapa boltanum sem er óvenjulegt og vorum að skjóta illa á markmanninn.”

„Þegar það fór að líða á hálfleikinn þá fór þetta að smella saman, en við vorum fimm mörkum yfir og misstum það of auðveldlega niður í þrjú mörk. Það var það eina, bara smá kæruleysi, en það er hlutur sem getur alltaf gerst. Heilt yfir mjög sáttur.”

FH er enn ósigrað á toppi deildarinnar og byrjunin hjá Fimleikafélaginu er draumi líkast.

„Auðvitað er þetta draumabyrjun. Sjö sigrar í sjö leikjum, en það breytir því ekki að næsta verkefni er alltaf það mikilvægasta. Við tökum eitt verkefni í einu og næst er það ÍR á mánudag. Við förum strax á morgun að undirbúa okkur fyrir það,” sagði Halldór Jóhann.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Kaplakrika og tók myndirnar hér fyrir neðan.

Arnar var mættur á hliðarlínuna þrátt fyrir að hafa verið látinn fara í síðustu viku.vísir/eyþór
vísir/eyþór
Halldór og lærisveinar hans eru með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar.vísir/eyþór

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira