Í færslu á Facebook-síðu sinni telur hann upp kosti límbandsins, og vísar í skrif tannlæknisins Mark Burhenne máli sínu til stuðnings.
„Til gamans má geta að anda með munninum er ekki æskilegt, heldur er neföndun náttúruleg og eðlileg leið líkamans til þess að anda. Neföndun er mikilvæg út af lofttegund að nafni nituroxíð sem líkaminn myndar í ennisholunum og skiptir miklu máli fyrir eðlilegt blóðflæði, blóðþrýsting, vöðvasamdráttarstyrk og framleiðslu hvatbera. 25% af nituroxíð myndar líkaminn í gegnum neföndun,“ útskýrir Rafn.
Hann segist vera einn af þeim sem „hrýtur, slefar með galopinn munninn og er með allskonar önnur leiðindi á nóttunni“ sem meðal annars verður til þess að hann sofi verr og nái síður djúpsvefni.
Þau vandræði hafi þó horfið eins og dögg fyrir sólu eftir að hann byrjaði að setja límband fyrir munninn.
„Með því að anda með nefinu í svefni má búast við eftirfarandi:
- Þú vaknar úthvíld/ur
- Blóðþrýstingur lækkar og líkur á hjarta- og æðasjúkdómum minnka
- Þú dregur úr kvíða og þunglyndi
- Þú eykur einbeitingu og minnið verður betra
- Hausverkir, mígreni og bakverkir geta minnkað
- Melting bætist og þyngdartap eykst
- Ónæmiskerfið styrkist og þar með fer kvef og pestum fækkandi
- Og síðast en ekki síst, hrotur minnka eða hverfa.
Teip í nótt og þú sefur rótt,“ segir Rafn glettinn.
Færslu einkaþjálfarans má sjá hér að neðan