Erlent

Svartir fá lengri dóma en hvítir fyrir sömu brot

Kjartan Kjartansson skrifar
Svartir menn virðast fá minni tækifæri frá bandaríska dómskerfinu en hvítir.
Svartir menn virðast fá minni tækifæri frá bandaríska dómskerfinu en hvítir. Vísir/Getty
Fangelsisrefsingar svartra karlmanna í Bandaríkjunum eru að jafnaði um fimmtungi lengri en hvítra karlmanna fyrir sömu brot, jafnvel þegar tekið hefur verið tillit til sakaferils þeirra og annarra þátta. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu opinberrar nefndar.

Refsiákvörðunarnefnd á vegum bandarísku alríkisstjórnarinnar tók saman gögnin og komst að þeirri niðurstöðu að svartir karlmenn sem voru dæmdir fyrir alríkisglæpi fengu lengri dóma en hvítir á árunum 2012 til 2016. Þá hafð verið tekið tillit til sakaferils, játninga, aldurs, menntunar og hvort að mennirnir væru með ríkisborgararétt.

Í umfjöllun vefmiðilsins Vox kemur fram að orsökin gæti vel verið hlutdrægni dómstóla gegn svörtu fólki. Hæstiréttur hafi veitt alríkisdómurinn meira sjálfdæmi um ákvörðun refsinga á síðustu tíu árunum. Það auki líkurnar á að fordómar liti refsingar.

Ástæðuna gætu einnig verið að finna í ákærum saksóknara. Rannsóknir hafi sýnt að saksóknarar sæki harðar fram gegn svörtum sakborningum en hvítum. Þannig séu svartir menn frekar ákærðir fyrir brot þar sem kveðið er á um að refsing verði að ná ákveðinni lágmarkslengd en hvítir, jafnvel þegar þeir eru sakaðir um sömu brot.

Nefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að dómarar væru líklegri til að sýna hvítum mönnum mildi en svörtum og stytta refsingar þeirra. Hvítir menn fengu einnig meiri styttingar á refsingu en svartir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×