Bardagakappinn Björn Lúkas Haraldsson úr Mjölni komst í gær í úrslitaviðureignina á heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA sem fram fer í Ástralíu.
Hann mætir Svíanum Khaled Laallam í úrslitum á morgun en hlé verður gert á keppni í dag. Björn Lúkas keppir í millivigt þar sem 29 hófu leik en sá sænski sat hjá í fyrstu umferð og er aðeins búinn að berjast tvisvar sinnum.
Sjá einnig:Gunnar Nelson er ofboðslega stoltur af Birni Lúkasi
Björn er búinn að berjast fjórum sinnum og hefur pakkað öllum andstæðingum sínum saman. Hann er búinn að klára alla sína bardaga í fyrstu lotu og hefur aðeins verið inn í búrinu á HM í sjö mínútur og þrjátíu og sex sekúndur.
Keppt er í þrisvar sinnum þriggja mínútna lotum þannig fari bardagi alla leið getur hann lengst verið níu mínútur. Björn Lúkas hefur því ekki náð að klára heilan bardaga í mínútum talið. Það eru MMA Fréttir sem vekja athygli á þessu.
Khaled Laallam, sem Björn Lúkas mætir í úrslitum á morgun, hefur unnið ellefu af tólf bardögum sínum á ferlinum en hann þurfti ekki að berjast í átta manna úrslitum þar sem mótherji hans stóðst ekki læknisskoðun og fékk ekki að keppa.
Sá sænski er búinn að klára báða bardaga sína á dómaraúrskurði og hefur því í heildina verið í búrinu í 18 mínútur í tveimur bardögum eða ríflega tvöfalt lengur en Björn Lúkas þrátt fyrir að Íslendingurinn er búinn að berjast tvisvar sinnum oftar.

