Hringdi Davíð til að mynda fyrirvaralaust í Jóhönnu einn daginn vegna málsins og segir hún frá því hvernig hún þurfti að halda símtólinu vel frá sér þar sem Davíð hafi verið svo æstur.
Páll Valsson ritar sögu Jóhönnu sem árið 2009 varð fyrsta íslenska konan til að verða forsætisráðherra á einhverjum erfiðustu tímum í sögu þjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins 2008.
Jóhanna varð fyrst forsætisráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem Framsóknarflokkurinn varði falli, í febrúar 2009. Hún varð síðan formaður Samfylkingarinnar í mars sama ár og eftir kosningarnar vorið 2009 tók hún forsæti í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Í bókinni segir Jóhanna frá því hvernig staðið var að þessum breytingum en alls voru þrír bankastjórar í Seðlabankanum, þeir Ingimundur Friðriksson, Eiríkur Guðnason og svo Davíð Oddsson, gamall andstæðingur Jóhönnu úr stjórnmálunum.
Allir fengu seðlabankastjórarnir bréf frá Jóhönnu þann 2. febrúar 2009 þar sem þeim var greint frá því að lagt yrði fram frumvarp um að ráðinn yrði einn seðlabankastjóri á faglegum forsendum að undangengnum hæfniskröfum.
Vísir birtir hér fyrir neðan brot úr bók Páls Valssonar um sögu Jóhönnu Sigurðardóttur sem segir frá upphafsdögum fyrsta ráðuneytis hennar og breytingunum á stjórn Seðlabanka Íslands. Skáletruðu kaflarnir eru það sem höfundur bókarinnar hefur beint eftir Jóhönnu sjálfri:

Land reist úr rústum
Þetta voru yfirþyrmandi verkefni sem blöstu við og við dembdum okkur bara beint í verkin enda voru þetta endalausar bráðaaðgerðir sem þoldu enga bið. Ég tók einn dag í einu og hver dagur var langur, ég vann myrkranna á milli í orðsins fyllstu merkingu, því ég vildi líka hafa yfirsýn sem verkstjóri. Við réðumst til dæmis strax í að breyta stjórnarráðslögum til að gera kerfið skilvirkara. En ég fékk kraft við að finna að ég hafði traust bakland. Flokkurinn var heils hugar á bak við mig, það var gífurlega mikilvægt og þá reyndi ég að horfa jákvætt á hlutina. Það skipti mig miklu máli að hafa við hlið mér sterkan varaformann, Dag B. Eggertsson, traustan og ráðagóðan á hverju sem gekk. Ég hafði líka með mér í ráðuneytinu fólk sem ég treysti algjörlega og hafði unnið með áður, Hrannar öruggan mér við hlið og ég veit stundum ekki hvernig ég hefði komist yfir þetta erfiða verkefni án hans. Það skipti líka máli að Ragnhildur Arnljótsdóttir og Ágúst Geir Ágústsson lögfræðingur komu með mér úr félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Og bílstjórinn Sigurður Egilsson, því honum gat ég treyst, bílstjórar heyra ýmis trúnaðarsamtöl og þurfa að vera þagmælskir, að ógleymdum mínum góða ritara Kristínu Hjartardóttur.Ég leit svo á að við mættum engan tíma missa, það var ekki tími til að læra á nýtt fólk heldur byggja á þeim sem maður gjörþekkti og treysti. Þetta var aðeins erfitt með Ragnhildi sem ég lagði kapp á að flytti með mér úr félagsmálaráðuneytinu, því í forsætisráðuneytinu var fyrir Bolli Þór Bollason, ágætur maður sem ég kunni vel við en taldi samt nauðsynlegt að skipta út, og sama átti við um Baldur Guðlaugsson í fjármálaráðuneytinu. Þeir höfðu staðið nálægt sínum ráðherrum. Ég fann aðeins anda köldu út af Bolla sem var vel liðinn enda ljúfur maður, en það hvarf strax þegar fólk fór að kynnast góðum kostum Ragnhildar. Bolli fór í sérverkefni og svo til Árna Páls í félagsmálaráðuneytið, Baldur í menntamálaráðuneytið og Guðmundur Árnason í fjármálaráðuneytið. Ráðuneytisstjórar eru lykilfólk og í þeim efnum hef ég verið afskaplega heppin í gegnum tíðina. Ragna Árnadóttir var á þessum tíma lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu. Það kom í minn hlut að hafa samband við hana og biðja hana að taka að sér dómsmálin. Hún varð undrandi en þurfti lítið að hugsa sig um og sló til. Bæði voru þau Ragna og Gylfi mjög traust og skipti verulegu máli að hafa þau með í ríkisstjórn þegar við gengum í gegnum mestu erfiðleikana.
En þetta voru strangir og skrýtnir dagar. Afskaplega erfiðir flestir og þetta tók mjög á mig, en ég keyrði mig líka áfram. Það var erfitt að horfa upp á stöðu heimilanna til dæmis og hvað þetta var allt komið í mikið óefni. Þetta voru algjörlega fordæmalausar aðstæður. Menn mega ekki gleyma því. En þarna skipti líka meginmáli að með okkur Steingrími J. Sigfússyni tókst trúnaðarsamband. Og það reyndi mikið á það.




„Það er hans afstaða og verður hann að taka ábyrgð á henni,“ segir Jóhanna þar og jafnframt að hún muni ekki bregðast við einstökum atriðum í bréfi bankastjórans heldur vinna áfram að því að „skapa frið um helstu stofnanir samfélagsins“. En samskiptum þeirra var ekki lokið:
Þetta var hið erfiðasta mál og viðbrögð Davíðs gerðu allt verra. Ég fundaði með Ingimundi og Eiríki, það voru erfiðir fundir og mér leið ekki vel með þetta þeirra vegna, en sá enga aðra leið en að skipta þeim öllum út. Það ríkti skortur á trausti og trúnaði í alþjóðlegu samhengi, við höfðum orðið rækilega vör við það. Davíð svaraði engu, en svo hringdi hann í mig fyrirvaralaust einn daginn og jós úr skálum reiði sinnar yfir mig. Ég varð um tíma að halda símtólinu vel frá mér, svo æstur var hann. Kjarninn í máli hans var eiginlega setningin: „Þið komið ekki svona fram við mig“, þetta væri ósvífni og hann heimtaði aftur og aftur að fá að vita hvaða lögfræðingar hefðu samið bréfið, því þeir væru „ósvífnir götustrákar“. Hann vísaði líka í ágætt samstarf okkar áður og spurði hvernig ég gæti í því ljósi komið svona fram við hann. Davíð var allsendis ófær um að meta stöðu sína kalt og hlutlægt, heldur horfði á málið eingöngu út frá sínum persónulegu forsendum. Það var sama hvað ég reyndi að skýra út fyrir honum að þetta væri nauðsynlegt út frá sjónarmiðum bankans og þjóðarinnar, hann kom alltaf aftur að þessu: „Já, en þið getið ekki komið svona fram við mig, fyrrverandi forsætisráðherra.“ Þetta reyndist vera síðasta samtal okkar Davíðs.
Þetta var hins vegar ekki í síðasta skiptið sem Davíð talaði um Jóhönnu, því eftir að frumvarp stjórnarinnar um breytingu á lögum um Seðlabankann fór loksins í gegn í þinginu varð Davíð að yfirgefa bankann. Haustið 2009 var hann hins vegar ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins og hóf þaðan að skrifa ótt og títt um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, og fann henni allt til foráttu. Bar margt af því merki þess að skrifari teldi sig eiga harma að hefna. Ekki síst var Davíð mjög uppsigað við norskan eftirmann sinn í Seðlabankanum, Svein Harald Øygard, sem ráðinn var tímabundið í starfið.