Umfangsmiklar skipulags- og hagræðingaraðgerðir hjá Valitor verða til þess að tuttugu starfsmenn hér á landi missa vinnuna. Þetta staðfestir forstjórinn Viðar Þorkelsson í samtali við Vísi.
Annars vegar er um að ræða ellefu störf sem færast frá Íslandi til Bretlands. Hins vegar missa níu starfsmenn vinnuna og ljúka störfum í dag. Möguleiki er fyrir þá sem sinna störfunum sem flytjast til Bretlands að flytja utan og sinna starfinu þar.
Þau níu sem láta af störfum í dag fá greiddan uppsagnafrest sem er misjafn milli manna að sögn Viðars.
„Ástæðan fyrir þessum aðgerðum er ekki síst að rekstrarumhverfi félagsins, sérstaklega á Íslandi, hefur verið að versna. Við erum með stærstan hluta af tekjunum erlendis. Þá er krónan í sögulegu hámarki sem hefur mikil áhrif á okkar tekjumyndun,“ segir Viðar. Til viðbótar komi kostnaðarhækkanir undanfarin ár sem spili inn í breytingarnar.
Viðar segir Valitor hafa 10 þúsund viðskiptavini í Bretlandi samanborið við um fimm þúsund hér á landi. Flutningurinn til Bretlands sé til að vera nær viðskiptavinunum.
Valitor er með um 350 starfsmenn í þremur löndum, Íslandi, Bretlandi og Danmörku.
