Kafarar á vegum dönsku lögreglunnar hafa fundið annan handlegg á hafsbotni í Køgeflóa. Talið er að fundurinn gæti tengst máli danska uppfinningamannsins Peter Madsen.
Lögregla í Kaupmannahöfn greindi frá fundinum í yfirlýsingu fyrr í dag. Handleggur fannst á botni flóans þann 21. nóvember síðastliðinn á því svæði þar sem talið er að kafbátur danska uppfinningamannsins Peter Madsen hafi siglt áður en honum var sökkt í ágúst.
Enn á eftir að fá staðfest með lífsýnum hvort handleggirnir séu Kim Wall, en búkur hennar, höfuð og fætur hafa þegar fundist á hafsbotni í Køgeflóa. Köfun verður fram haldið, en enn á eftir að finna farsíma þeirra Wall og Madsen.
Madsen situr nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa banað sænsku blaðakonunni Kim Wall þegar þau ferðuðust saman í kafbát Madsen í ágúst síðastliðinn. Madsen hefur viðurkennt að hafa vanvirt lík Wall.
Áætlað er að aðalmeðferð hefjist í máli Madsen 8. mars næstkomandi.
Fundu annan handlegg á botni Køgeflóa
Tengdar fréttir
Fundu handlegg á hafsbotni í Køgeflóa
Handleggurinn fannst á því svæði þar sem talið er að kafbátur danska uppfinningamannsins Peter Madsen hafi siglt áður en honum var sökkt.
Viðurkennir að hafa sundurlimað lík Wall en segir kolmónoxíðeitrun banameinið
Peter Madsen breytir frásögn sinni.