Innlent

Loftgæði slæm í nágrenni við umferðargötur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Á morgun er búist við svipuðu veðri og því von á áframhaldi á frekar lélegum loftgæðum.
Á morgun er búist við svipuðu veðri og því von á áframhaldi á frekar lélegum loftgæðum. Vísir/GVA
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur varar fólk sem þjáist af öndunarfærasjúkdómum og börn að vera mikið úti í nágrenni við miklar umferðargötur vegna lélegra loftgæða sem stafar af kyrru veðri og þurru á höfuðborgarsvæðinu. Veðurstofa Íslands spáir svipuðu veðri á morgun.

Styrkur svifryks (PM10) og köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) hefur verið hár það sem af er degi 27. nóvember og verður líklega yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í nágrenni við miklar umferðargötur og jafnvel víðar í borginni, að því er segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Í dag hefur verið hægur vindur og kalt, götur þurrar og engar líkur á úrkomu. Á morgun er búist við svipuðu veðri og því von á áframhaldi á frekar lélegum loftgæðum.

Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna. Sólarhrings heilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru þau 75 míkrógrömm á rúmmetra.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna hér. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu og við Hringbraut 26. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×