Lífið

Þingstörf kennd í áratug

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Hildur Gróa og Sigríður Helga halda utan um starfið í Skólaþinginu, ásamt fleira fólki.
Hildur Gróa og Sigríður Helga halda utan um starfið í Skólaþinginu, ásamt fleira fólki. Fréttablaðið/Anton Brink
Það skapast oft skemmtilegar umræður og öflug skoðanaskipti um mál á Skólaþinginu. Sumir lifa sig algerlega inn í hlutverk sitt sem þingmenn,“ segir Hildur Gróa Gunnarsdóttir, sem ásamt Sigríði Helgu Þorsteinsdóttur og fleirum, heldur utan um Skólaþingið í kennsluveri Alþingis. Það þing er fyrir nemendur í 8. til 10. bekk grunnskólans og felst í leik sem tekur tvo til þrjá tíma. Þar er líkt eftir störfum Alþingis.

„Allir hóparnir fá þrjú frumvörp. Eitt er um stofnun hers á Íslandi, annað um forrit til að hafa eftirlit með tölvunotkun barna og unglinga og það þriðja um kattahald,“ segir Hildur Gróa og heldur áfram að lýsa leiknum.





 „Hverjum hóp er skipt upp í þingflokka og þrjár nefndir, þvert á flokka. Hver nefnd er með eitt af þessum frumvörpum til umfjöllunar, skoðar fréttir um málið og fer yfir símtöl frá borgurum. Hver og einn í nefndinni hefur tækifæri til að setja fram breytingartillögur við frumvarpið, þær eru lagðar fyrir alla „þingmenn“ í sal og atkvæði eru greidd. 

Þannig kynnast krakkarnir því hvað gerist frá því frumvarp er lagt fram þar til það getur orðið að lögum og að það sé heilbrigt og gott að margar skoðanir fái að heyrast. Þannig virki lýðræðið.“

Hildur Gróa telur Skólaþingið hafa verið framfaraskref því í aðalnámsskrá sé gert ráð fyrir að nemendur læri um hvernig lög verði til. „Áður komu nemendur hingað í þingið í skoðunarferðir og hlustuðu á fróðleik sem gat farið inn um annað eyrað og út um hitt. Nú fá þeir góða innsýn í störf Alþingis og hugtökin  öðlast merkingu. Það ætti að auðvelda þeim að fylgjast með umræðum. Aðalatriðið er að þeir átti sig á ferlinu og geti sett sig í spor þingmanna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×