Körfubolti

Viðurkennir að hafa skáldað fæðingardag Manute Bol | Var miklu eldri en talið var

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ef fullyrðingar þjálfarans reynast sannar var Bol um fimmtugt þegar hann hætti í NBA.
Ef fullyrðingar þjálfarans reynast sannar var Bol um fimmtugt þegar hann hætti í NBA. vísir/getty
Fyrrverandi þjálfari í bandaríska háskólakörfuboltanum segir að miðherjinn hávaxni, Manute Bol, hafi verið miklu eldri en talið var.

Kevin Mackey, fyrrverandi þjálfari Cleveland State, segist í viðtali hafa skáldað fæðingardag Bols, 16. október 1962, þegar hann kom til Bandaríkjanna frá heimalandinu Súdan. Mackey segir að enginn, þ.á.m. Bol sjálfur, hafi ekki vitað hversu gamall hann var.

Mackey telur að Bol hafi í raun verið 16 árum eldri en flestir héldu að hann væri. Bol var þá 35 ára þegar hann hóf feril sinn í háskóla en ekki 19 ára eins og talið var.

Bol kom inn í NBA-deildina 1985 og spilaði þar í áratug. Ef fullyrðingar Mackeys reynast sannar hefur Bol því verið um fimmtugt þegar hann hætti í NBA.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem aldur Bols er dreginn í efa en fyrrverandi samherji hans hjá Philadelphia 76ers, Jayson Williams, segir að hann hafi verið allt að 55 ára gamall þegar hann spilaði í NBA.

Bol, sem var 2,31 metrar á hæð og með 2,59 metra vænghaf, leiddi NBA-deildina tvisvar í vörðum skotum. Hann er hæsti leikmaður í sögu NBA ásamt Rúmenanum Gheorghe Muresan.

Bol lést árið 2010, 63 ára að aldri ef Mackey hefur rétt fyrir sér.

Sonur Bols, Bol Bol, þykir mikið efni. Bol Bol, sem er 18 ára og 2,17 metrar á hæð, hefur samið við Oregon-háskólann um að leika með honum á næsta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×