Innlent

Parið í gæsluvarðhaldi til 6. desember

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn sem grunaður er í málinu var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í hádeginu í dag.
Maðurinn sem grunaður er í málinu var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur í hádeginu í dag. Vísir/Anton Brink
Par sem grunað er um umfangsmikla vændisstarfsemi hefur verið úrskurðað í gæsluvarðhald til 6. desember. Parið var leitt fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur um hádegisbil í dag. Dómari tók sér frest áður en hann kvað upp úrskurð sinn og óskaði meðal annars eftir frekari gögnum.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi nú að dómarinn hafi orðið við kröfu lögreglunnar um að úrskurða parið í gæsluvarðhald til 6. desember á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hann sagði það ekki liggja fyrir að svo stöddu hvort parið hefði kært þennan úrskurð til Hæstaréttar.

Fólkið sem um ræðir var handtekið um hádegisbil í gær en þau eru á fertugs- og fimmtugsaldri.Vísir/Anton Brink
Fólkið sem um ræðir var handtekið um hádegisbil í gær en þau eru á fertugs- og fimmtugsaldri. Er annar einstaklingurinn Íslendingur en hinn af erlendu bergi brotinn. Hefur rannsókn málsins staðið yfir í þrjár vikur.

Lögreglan gerði húsleit á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Á tveimur þeirra voru þrjár konur á þrítugsaldri. Til rannsóknar er hvort þær séu þolendur mansals og verða þeim fundin viðeigandi úrræði.

Í húsleit lögreglu var lagt hald á tölvu- og símagögn, auk fjármuna. Grímur segir fjármunina sem lagt var hald á hlaupa á milljónum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu að lögreglan telji sig vita um kaupendur.

*Fréttin var uppfærð klukkan 14:20

Vísir/Anton Brink

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×