Fótbolti

Skilaboð frá hetju Sevilla á móti Liverpool: Vonandi sá AC Milan þennan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wissam Ben Yedder fagnar marki í leiknum í gær.
Wissam Ben Yedder fagnar marki í leiknum í gær. Vísir/Getty
Fyrir meira en áratug þá tryggði Liverpool sér sigur í Meistaradeildinni þrátt fyrir að hafa verið 3-0 undir í hálfleik í úrslitaleiknum á móti AC Milan.

Stuðningsmenn Liverpool eru duglegir að rifja upp þennan leik í Istanbul og þeir sem voru á staðnum hafa líka aldrei upplifað aðra eins gleðistund.

Í gær var Liverpool liðið hinsvegar í hlutverki AC Milan í leik í Meistaradeildinni. Liverpool komst nefnilega í 3-0 á móti Sevilla í fyrri hálfleik og var svo gott sem búið að tryggja sér sigur og um leið sæti í sextán liða úrslitunum.

Sevilla menn komu hinsvegar til baka, minnkuðu muninn í 3-2 með tveimur mörkum frá Wissam Ben Yedder og skoruðu síðan jöfnunarmarkið í uppbótartíma.  Liverpool fór því í burtu með eitt stig og sætið í sextán liða úrslitunum er ekki tryggt ennþá.

Wissam Ben Yedder, hetja Sevilla liðsins, fór á Twitter eftir leikinn og stríddi aðeins stuðningsmönnum Liverpool með því að skrifa: Vonandi sá AC Milan þennan leik.





Wissam Ben Yedder setti seinna inn færslu þar sem hann hrósaði stuðningsmönnum Liverpool en það var svakalegt að horfa upp í stúkuna þar sem Liverpool stuðningsfólkið var eftir að Sevilla hafði jafnað metin. Liverpool stuðningsmennirnir stóðu þar allir sem einn steinrunnir.  

Með þessum tveimur mörkum þá er Wissam Ben Yedder kominn með átta Meistaradeildarmörk fyrir Sevilla og er því búinn að bæta félagsmet Frédéric Kanouté sem skoraði á sínum tíma sjö mörk fyrir Sevilla í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×