Innlent

Grunur um umfangsmikla vændisstarfsemi: Lögreglan telur sig vita um kaupendur

Nadine Guðrún Yaghi og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. vísir/Anton Brink
Lögreglan telur sig vita um einhverja kaupendur í máli þar sem grunur leikur á að par hafi staðið í umfangsmikilli vændisstarfsemi. Þetta kom fram í viðtali við Grím Grímsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Lögreglan handtók fólkið, karl og konu, um hádegisbil í dag en þau eru á fertugs-og fimmtugsaldri. Annar einstaklingurinn er Íslendingur en hinn er af erlendu bergi brotinn. Rannsókn málsins hefur staðið í þrjár vikur.

„Við handtókum í dag þessa tvo einstaklinga sem eru grunuð um að vera með milligöngu um vændi. Jafnframt töluðum við við og buðum þremur ungum konum úrræði sem okkur grunar að hafi verið seldar í vændi,“ sagði Grímur fyrr í kvöld.

Yfirheyrslur hafa farið fram yfir fólkinu í dag en Grímur vildi ekki fara út í það hvort að játning lægi fyrir í málinu.

Húsleit var gerð á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Aðspurður hvort að grunur leiki á að konurnar hafi verið gerðar út frá þessum þremur stöðum sagði Grímur að grunur væri um að þær hafi verið gerðar út frá tveimur af þessum þremur stöðum.

 

Viðtalið við Grím má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×