Innlent

Par handtekið vegna gruns um vændisstarfsemi

Birgir Olgeirsson skrifar
Samkvæmt heimildum fréttastofu var gerð húsleit á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins í dag.
Samkvæmt heimildum fréttastofu var gerð húsleit á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins í dag. Vísir
Par, karlmaður og kona, var handtekið um hádegisbil í dag vegna gruns um vændisstarfsemi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft til rannsóknar. 

Lögreglan gerði húsleit á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins í dag. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er parið nú í yfirheyrslu hjá lögreglu vegna málsins.

Uppfært klukkan 17:33:

Eftirfarandi tilkynning var að berast frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins en nánar verður fjallað um það í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karl og konu um hádegisbil í dag í þágu rannsóknar hennar á umfangsmikilli vændisstarfssemi.

Fólkið, sem er á fertugs- og fimmtugsaldri og grunað um að standa að baki starfseminni, var handtekið í kjölfar húsleitar lögreglu á þremur stöðum í Reykjavík.

Á tveimur þeirra voru enn fremur þrjár konur á þrítugsaldri.  Til rannsóknar er hvort þær séu þolendur mansals og verða þeim fundin viðeigandi úrræði.

Við húsleitirnar var lagt hald á tölvu- og símagögn, auk fjármuna, en ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×