Viðskipti innlent

Spá 4 prósent aukningu útflutningsverðmætis sjávarafurða á næsta ári

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Útflutningsverðmæti sjávarafurða ársins 2016 námu 232 milljörðum.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða ársins 2016 námu 232 milljörðum. vísir/stefán
Gangi spá fyrir árið 2017 eftir munu útflutningsverðmæti sjávarafurða nema 210-220 milljörðum króna, en það samsvarar ríflega 7 prósent samdrætti milli ára. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg.

Á komandi ári er gert ráð fyrir ríflega 4 prósent aukningu útflutningsverðmætis sjávarafurða fyrir tilstilli veikari krónu, hærra heimsmarkaðsverðs og aukins kvóta.

Þar kemur fram að Ísland sitji í nítjánda sæti á heimsvísu yfir fiskveiðiþjóðir með um 1,2 prósent hlutdeild. Ísland hefur færst niður um nokkur sæti á undanförnum árum vegna aukinna umsvifa annarra þjóða í greininni.



Heildarafli fyrstu níu mánaða ársins nemur 915 þúsund tonnum sem er um 64 þúsund tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Þetta skýrist einkum vegna aukinna loðnuveiða.

Útflutningsverðmæti 20 prósent af vöru- og þjónustuútflutningi

Útflutningsverðmæti sjávarafurða ársins 2016 námu 232 milljörðum króna sem er tæpum 37 milljörðum, eða 14 prósent minna en árið á undan.  Þessi útflutningsverðmæti nema 20 prósent af gjaldeyristekjum hagkerfisins af vöru- og þjónustuútflutningi.

Þorskur var verðmætasta útflutningstegund ársins 2016 og námu útflutningsverðmæti hans 100 milljörðum króna, um 43 prósent af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða.

Tekjur sjávarútvegsfélaga hér á landi árið 2016 námu 249 milljörðum og lækkuðu því um 31 milljarð á föstu verðlagi, eða um 11 prósent. EBITDA var 56 milljarðar á sama tíma og hefur framlegð þess lækkað um 4 prósentur, úr 26 í 22 prósent. Skuldastaða sjávarútvegsfélaganna hefur ekki verið lægri frá árinu 2008, en skuldir þeirra námu um 319 milljörðum.

Gengi krónunnar styrkist

Frá sumarbyrjun hefur gengi krónu lækkað um nærri 12 prósent miðað við viðskiptavegna körfu gjaldmiðla. Veikingin kemur í kjölfar 35 prósent styrkingar frá miðju ári 2015 til maíloka 2017. Það er spá Íslandsbanka að gengi krónu verði á svipuðum slóðum á komandi fjórðungum og það hefur að jafnaði verið það sem af er á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×